Gengi krónunnar hefur styrkst mikið að undanförnu gagnvart helstu viðskiptamyntum heimsins. Gengi krónunnar gagnvart evrunni hefur styrkst um ríflega 15 prósent á síðustu 10 mánuðum, og um fjögur prósent á undanförnum mánuði. Evran kostar nú 120 krónur en fyrir rúmlega ári kostaði hún 150 krónur og um mitt ár 2014 154 krónur.
Leita þarf aftur til fyrrihluta árs 2008 til að finna sterkari stöðu krónunnar gagnvart evru heldur en nú er. Í júlí 2008 kostaði evran 129 krónur en í febrúar kostaði hún 98 krónur. Eftir fall krónunnar í marsmánuði 2008 var evran komin í 122 krónur og veiktist krónan svo jafnt og þétt fram að stjórnlausu falli hennar eftir hrun bankanna, í október 2008, og setningu fjármagnshafta með lögum í nóvember sama ár. Þá kostaði krónan 182 krónur.
Gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal hefur einnig styrkst nokkuð en hann kostar nú 113 krónur, en fyrir ári kostaði hann 136 krónunnar.
Gengi krónu gagnvart evru er mikilvæg stærð í efnahagslegum veruleika Íslands, enda er utanríkisverslun Íslands að langmestu leyti við Evrópuþjóðirnar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar nam utanríkisverslun Íslands við evrópska efnahagssvæði í fyrra 489 milljörðum króna, en til samanburðar þá nam utanríkisverslun Íslands inn á Bandaríkjamarkað 35 milljörðum.
Í nýjustu Peningamálum Seðlabanka Íslands er staða krónunnar gerð að umtalsefni og sagt að hún hafi stuðlað að því að halda verðbólgu í skefjum, ásamt fleiri þáttum. „Eins og rakið er í Peningamálum 2016/3 virðist sem mikill viðskiptakjarabati undanfarin ár, lítil alþjóðleg verðbólga, gengis - hækkun krónunnar og aðhaldssöm peningastefna hafi að miklu leyti haldið aftur af kostnaðaráhrifum launahækkana undangenginna missera. Hækki gengi krónunnar hins vegar ekki frekar taka áhrif hennar smám saman að fjara út þegar líður á spátímann. Samkvæmt grunnspá Peningamála verður verðbólga komin í rúmlega 3% um mitt næsta ár en nær hámarki í 3,8% á fyrri hluta ársins 2018. Hún tekur síðan að hjaðna á ný og er gert ráð fyrir að hún verði komin niður fyrir 3% á fyrri hluta árs 2019. Rétt er að undirstrika að óvissa um gengisþróun á næstu misserum er meiri en verið hefur undan - farin ár í ljósi losunar fjármagnshafta,“ segir í Peningamálum.