Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur kært tvo yfirmenn í Seðlabankanum fyrir að hafa leitast við að koma rangfærslum til leiðar sem yrðu til þess að Þorsteinn Már yrði sakaður um eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefur borist kæra frá lögmanni Þorsteins Más á hendur Arnórs Sighvatssonar aðstoðarseðlabankastjóra og Ingibjargar Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits bankans. Þau hafi ekki aðeins komið „rangfærslum, villandi málatilbúnaði og ófullnægjandi upplýsingum“ til leiðar heldur einnig komist undan því að koma „fullnægjandi upplýsingum til embættis sérstaks saksóknara við rannsókn í sakamáli embættisins“.
Um er að ræða kæru Seðlabankans á hendur Þorsteins Más til sérstaks saksóknara 9. september 2009 þar sem honum var gefið að sök að hafa brotið gegn gjaldeyrislögum með því að vanrækja skil á erlendum gjaldeyri sem Samherji eignaðist á tímabilinu 28. nóvember 2008 til 27. mars 2012. Arnór og Ingibjörg undirrituðu kæruna fyrir hönd Seðlabanka Íslands.
Málið á hendur Þorsteini Má og þremur öðrum starfsmönnum Samherja var fellt niður í september í fyrra. Þá hafði Þorsteinn Már margítrekað sakleysi sitt og Samherja í málinu og sagt gögnin sem hann hefði séð frá Seðlabankanum vera á misskilningi og vankunnáttu byggð.
Þorsteinn sagði í fyrra í samtali við Vísi að málið hefði haft gríðarlegt tjón í för með sér fyrir fyrirtækið en rannsóknin stóð yfir í á fjórða ár, eða frá því mars 2012.
Málið hófst með húsleitum sem starfsmenn Seðlabankans framkvæmdu í höfuðstöðvum Samherja bæði á Akureyri og í Reykjavík. Húsleitirnir voru framkvæmdar á grundvelli grunsemda um brot á lögum um gjaldeyrismál.
Í framhaldi af rannsókn kærði Seðlabankinn Samherja og tengd fyrirtæki fyrir brot gegn gjaldeyrislögum til sérstaks saksóknara, en svo kom í ljós að ekki var heimilt samkvæmt laganna bókstaf að kæra fyrirtækin fyrir brot á lögunum sem um ræddi.
Í framhaldinu kærði bankinn einstaklinga innan fyrirtækisins, það er Þorstein Má Baldvinsson forstjóra fyrirtækisins og þrjá aðra lykilstarfsmenn fyrir að brjóta gegn gjaldeyrishöftunum, að því er segir í frétt Vísis.
Meint brot vörðuðu sektum eða allt að tveggja ára afangelsi. Við tók rannsókn á málinu sem sem lauk ekki fyrr en á vormánuðum ársins 2015.
Morgunblaðið greinir frá því að í kærunni sé bent á að meint brot starfsmanna bankans varði allt að 10 ára fangelsi og refsiauka um að minnsta kosti 2 ár ef sannað er að þeir hafi ætlað velferðarmissi fyrir þolanda.