Fyrsta þýska útgáfa Charlie Hebdo hæðist að Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, og sýnir hana bæði sitjandi á klósettinu og á bílalyftu þýska bílaframleiðandans Volkswagen. Franska skopteikningadaglaðið Charlie Hebdo kom út í þýskri útgáfu í fyrsta sinn í morgun og er það jafnframt fyrsta útgáfa blaðsins á öðru tungumáli en frönsku.
Á forsíðu þýsku útgáfunnar er Merkel sýnd liggja á bílalyftu bifreiðaframleiðandans Volkswagen undir fyrirsögninni „VW stendur með Merkel“. Bifvélavirki fyrirtækisins heldur á púströri og segir „Með nýju pústi verður hún fær í fjögur ár í viðbót“. Er það vísun í útblásturssvindl Volkswagen og erfiða pólitíska stöðu Merkel og flokks hennar, Kristilegra demókrata, í Þýskalandi.
Fyrsta útgáfa Charlie Hebdo í Þýskalandi var prentuð í 200.000 eintökum og spannar 16 síður. Blaðið varð heimsþekkt eftir að hryðjuverkamenn gerðu árás á ritstjórnarskrifstofur blaðsins í París í janúar 2015 þar sem tólf manns voru myrtir. Charlie Hebdo er nú framleitt á leynistað í Frakklandi, í bæði franskri og þýskri útgáfu. Ritstjóri þýsku útgáfunnar er 33 ára kona frá Berlín. Hún hefur farið að ráði kollega sinna og gengur undir dulnefninu Minka Schneider.
Aðalteiknari þessarar fyrstu útgáfu er Laurent Sourisseau sem gengur undir listamannsnafninu Riss. Hann varpar raunsærri mynd af fólki sem hann hefur kynnst á ferðum sínum eftir árásirnar, ferðamannastraumnum til Evrópu og öðrum samfélagsmálum.
Riss særðist alvarlega í árásum hryðjuverkamannanna í París. Hann sagði í samtali við ARD að húmor væri alls staðar, meira að segja í Þýskalandi. „Þetta er tilraun hjá okkur að gefa Charlie Hebdo út á öðru tungumáli og reyna að hafa uppi á nýjum aðdáendum tímaritsins sem geta hjálpað okkur að vernda það.“