Viðskiptajöfnuður mældist hagstæður um 100,4 ma.kr. á ársfjórðungnum samanborið við 32,5 ma.kr. fjórðunginn á undan. Þetta er mesti afgangur af viðskiptajöfnuði frá upphafi mælinga og í fyrsta sinn sem hann fer yfir 100 milljarða króna á fjórðungi.
Frá þessu var greint á vef Seðlabanka Íslands í dag.
Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður sem nam 22,5 milljarða króna en þjónustujöfnuður mældist hagstæður um 121,6 milljara króna. Jöfnuður frumþáttatekna var hagstæður um 6,1 milljarða króna. rekstrarframlög óhagstæð um 4,8 milljarða króna.
Mestu munar um mikinn vöxt í ferðaþjónustunni, og miklar gjaldeyristekjur þjóðarbússins af erlendum ferðamönnum. Þá stórbatnaði skuldastaðan við útlönd við uppgjör slitabúa föllnu bankanna.
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.040 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 3.980 milljörðum króna. Hrein staða við útlönd var því jákvæð um 60 milljarða króna eða sem nam 2,6 prósent af vergri landsframleiðslu. „Erlend staða þjóðarbúsins er jákvæð í fyrsta sinn frá því að mælingar hófust. Nettóskuldir lækkuðu um þrjátíu milljarða eða sem nam 1,3 prósent af landsframleiðslu á milli ársfjórðunga. Hrein fjármagnsviðskipti leiddu til um 129 ma.kr. bættrar erlendrar stöðu þjóðarbúsins,“ segir í frétt seðlabankans.
Þar af hækkuðu erlendar eignir um 140 milljarða en skuldir um 11 milljarða vegna fjármagnsviðskiptanna. Gengis- og verðbreytingar höfðu neikvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins um 83 milljarða á ársfjórðungnum.
Gengi krónunnar styrktist gagnvart helstu gjaldmiðlum eða að jafnaði um 6,7 prósent. Mest styrkist gengi krónunnar gagnvart sterlingspundi eða um 10,1 prósent, en frá því Brexit kosningin fór fram í júni, hefur gengi pundsins veikst mikið gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum. Pundið kostar nú um 140 krónur en kostaði 206 krónur fyrir rúmu ári.