Alþýðusamband Íslands (ASÍ) segir fullyrðingar nýs formanns Neytendasamtakanna, Ólafs Arnarsonar, um að „Alþýðusambandið ásamt Samtökum atvinnulífsins stýri öllum lífeyrissjóðum landsins“ séu rangar. Þá segir í yfirlýsingu ASÍ vegna fullyrðinga Ólafs, að ásakanir um „óhlutdrægni verðlagseftirlitsins“ séu afar óbilgjarnar því öllum sem kynna sér málið ætti að vera ljóst að Alþýðusamband Íslands hafi aldrei haft neina aðkomu að því að skipa fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða hér á landi. „Þó lífeyriskerfi almenns launafólks hafi orðið til með kjarasamningum árið 1969 hefur aðkoma ASÍ að uppbyggingu kerfisins einungis verið á grundvelli almennra hagsmuna og réttinda launafólks í lífeyrismálum. Það er því fjarri sannleikanum að fullyrða, að Alþýðusambandið stýri lífeyrissjóðunum og enn langsóttara að tilvist lífeyriskerfisins valdi því að sambandið sé óhæft til sinna verðlagseftirliti í verslunum til að upplýsa og verja kaupmátt félagsmanna sinna,“ segir í yfirlýsingu frá ASÍ.
Ólafur lét þessi orð um aðkomu ASÍ að verðlagseftirliti falla í viðtali við RÚV.
Í yfirlýsingu ASÍ segir enn fremur að það sé fagnaðarefni að formaður Neytendasamtakanna vilji fylgjast betur með verðlagi hér á landi, enda hafi það þverið forgangsmál hjá ASÍ um árabil. „Í sjálfu sér ber að fagna því að formaður Neytendasamtakanna vilji leggja lið í að fylgjast betur með verðlagi á markaði hér á landi, en eins og kunnugt er hefur Alþýðusamband Íslands um árabil verið eini aðilinn sem sinnt hefur því verkefni sem þó er ærið. Það er að sama skapi dapurlegt að formaður Neytendasamtakanna skuli velja að ráðast gegn þeim samtökum sem leggja fram mikla fjármuni til að sinna þessu verkefni af myndarskap undanfarin 25 ár með því að ganga erinda verslunarinnar og sá fræjum tortryggninnar og rýra trúverðugleika verðalagseftirlits ASÍ. Honum væri nær að leggjast á árar með okkur til að sinna hagsmunagæslu fyrir neytendur, en eins og honum er kunnugt eru neytendamál víða í ólestri hér á landi. Í allt of langan tíma hafa stofnanir sem sinna neytendavernd verið veikar og pólitísk áhersla á neytendamál lítil. Kröftum formannsins væri því betur varið í að styrkja stöðu neytendamála í stað þess að byrja á að ráðast gegn samherjum sínum á þessu sviði, því verkefnin eru mörg og brýn eins og dæmin sanna,“ segir í yfirlýsingunni.
Ólafur Arnarson, formaður Neytendasamtakanna, sendi frá sér tilkynningu 6. desember þar sem hann brást við fullyrðingum ASÍ.
Hún birtist hér að neðan í heild sinni.
„ASÍ hefur svarað ummælum mínum, sem ég lét falla á Morgunvaktinni hjá Óðni Jónssyni á Rás 1 í gærmorgun, um að ég telji eðlilegt að Neytendasamtökin hafi með höndum verðlagskannanir fremur en ASÍ sem tengist helstu smásölukeðjum stjórnunarböndum í gegnum lífeyrissjóði landsins.
Ég vil byrja á að benda á að það er rangt hjá ASÍ að ég hafi haldið því fram að verðlagskannanir sambandsins væru óhlutlægar. Það gerði ég ekki. Égt tvítók að með orðum mínum væri ég einmitt ekki að halda því fram að neitt væri óeðlilegt við framkvæmd verðkannana hjá ASÍ. Það væri hins vegar óheppilegt vegna áðurgreindra stjórnunartengsla að ASÍ hefði framkvæmd þeirra með höndum, vegna þess að ekki væri nægilegt að framkvæmdin væri í lagi heldur þyrfti að vera hafið yfir allan vafa að engin hagsmunatengsl gætu haft áhrif á þær.
Komum við þá að þeirri fullyrðingu ASÍ að rangt sé hjá mér að ASÍ tengist stjórnum lífeyrissjóða þar sem ASÍ velji enga fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða. ASÍ velur ekki beint fulltrúa í stjórnir lífeyrissjóða heldur eru það aðildarfélög ASÍ sem það gera. Á þessu er bitamunur en ekki fjár. Þá bendir það til beinna tengsla og hagsmuna ASÍ af núverandi fyrirkomulagi við val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum að þegar fram kom tillaga á þingi ASÍ um að aðildarfélög ASÍ skuli ekki velja stjórnarmenn í lífeyrissjóðum til jafns við samtök atvinnulífsins, heldur skuli sjóðsfélagar sjálfir velja sína stjórnarmenn mætti sú tillaga mikilli andstöðu æðstu manna ASÍ. Forseti ASÍ talaði gegn tillögunni, sem bendir til þess að hann telji einhvern hag vera fyrir ASÍ af núverandi fyrirkomulagi, sem tryggir aðildarfélögum ASÍ helming stjórnarmanna í almennum lífeyrissjóðum.
Þá er rétt að benda á að ASÍ fær árlega 30 milljónir frá ríkinu, af fjárlagalið Forsætisráðuneytisins, til að sinna
verðlagskönnunum. Mikilvægt er að slíkum fjármunum sé sem best verið í þágu neytenda og það er bjargföst trú mín
að þeim könnum sé betur komið í höndum Neytendasamtakanna en ASÍ. Í því fellst ekki áfellisdómur yfir framkvæmd
kannana hjá ASÍ eins og áður er vikið að. Neytendasamtökin lýsa vilja sínum til samstarfs við ASÍ og aðra um að
koma verðkönnunarmálum í sem best horf til að gagn verði af fyrir neytendur í landinu og samkeppni, neytendum til
hagsbóta. Neytendasamtökin hafa átt ágætt samstarf við ASÍ í ýmsum málum og vonandi verður svo áfram.“
Fréttinni var breytt 7. desember eftir að yfirlýsing Ólafs Arnarssonar barst.