Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir að það hljóti að vera „mistök” að aðeins séu 300 milljónir í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2017 sem eyrnamerktar eru Dýrafjarðargöngum á Vestfjörðum.
Í samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2018 samþykkti Alþingi að á árinu 2017 yrðu 1,5 milljörðum varið til þess að hefja framkvæmdir á Dýrafjarðargöngum sem nú eru í útboðsferli. Ekki var þó útfært endanlega hvernig átti að fjármagna þessa hluti eins og fjárlagafrumvarpið ber með sér.
Gunnar Bragi gagnrýnir þetta á Facebook-síðu sinni og segir að „leiðrétta” þurfi þessa hluti. „Ég kann ekki skýringu á þessu en mun beita mér fyrir því að þetta verði lagfært hið fyrsta og tel fullvíst að þverpólitísk samstaða sé um það á þinginu. Vestfirðingar hafa beðið alltof lengi eftir þessari gífurlega mikilvægu samgöngubót og hlakka ég til þess að verða vitni að fyrstu skóflustungunni strax á næsta ári!“ segir Gunnar Bragi.
Bjarni Benediktsson sagði í Kastljósi í gær að ekki væri svigrúm til að fullfjármagna samgönguáætlun eins og hún hefur verið samþykkt. Samtals vantar fimmtán milljarða upp á. Í fjármálafrumvarpinu segir að það þurfi að skera samgönguáætlun niður sem fyrrnefndri upphæð, ef ekki koma til neinar breytingar. Heildarfjárheimild til samgangna fyrir árið 2017 er áætluð tæpir 29 milljarðar.