Hægagangur efnahagsmála í Evrópu hefur leitt til þess að Seðlabanki Evrópu hefur ákveðið að framlengja fjárinnspýtingaráætlun sína um í það minnsta eitt ár, fram til desember mánaðar 2017.
Áætlunin átti að gilda fram til marsmánaðar og í henni hefur falist að bankinn hefur keypt skuldabréf fyrir 80 milljarða evra á mánuði, jafnvirði um 9.600 milljarða króna, til að liðka fyrir fjármögnun fyrirtækja - ekki síst banka - í Evrópu. Nú verða kaupin að hámarki 60 milljarða evra. Þykir það til marks um að bankinn telji efnahagsforsendur í álfunni heldur vera að vænkast, en spár greinenda höfðu gert ráð fyrir því að Seðlabanki Evrópu myndi tilkynna um framlengingu áætlunar sinnar fram í aprílmánuð hið minnsta.
Stýrivextir Seðlabanka Evrópu eru nú við núllið og hefur stefna bankans allt frá árinu 2010 miðað að því að örva eftirspurn í hagkerfinu en lítill hagvöxtur á þessu ríflega 500 milljóna íbúa efnahagssvæði, sem evrusvæðið er, er einn helsti efnahagsvandinn sem Seðlabankinn hefur einblínt á. Meðaltalsatvinnuleysi í Evrópu er nú um 10 prósent, en staðan er mun verri í ríkjunum við Miðjarðarhafið - Spáni, Portúgal, Ítalíu og Grikklandi - heldur en í ríkjunum norðar í álfunni. Þannig er meðaltalsatvinnuleysi í Norður-Evrópu um 5 prósent, með Þýskland sem helsta efnahagslega drifkraftinn.
Mario Draghi, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, sagði í tilkynningu í gær, að bankinn myndi hugsanlega auka aftur fjárhagsinnspýtingu á markaði, ef þess þyrfti.
Umfang þessara örvunaraðgerða Seðlabankans er gríðarlegt, má til dæmis nefna að örvunaraðgerðirnar á einu ári jafngilda samanlagðri landsframleiðslu Grikklands og Portúgals. Neil Williams, greinandi hjá Hermes Investment, segir í viðtali við breska ríkisútvarpið BBCríkisútvarpið BBC að neikvætt vaxtastig valdi því að mikið flæði sé á ódýru - og raunar fríu - fjármagni fyrir fjárfesta. Hann talar um stöðuna sem „brjálæði“.
Í uppfærðri hagspá bankans er gert ráð fyrir því að hagvöxtur á evrusvæðinu verði 1,7 prósent á þessu ári og verðbólga verði komin í 1,3 prósent í lok ársins, en verðbólgu markmiðið er tvö prósent.