Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að enn og aftur hafi hagstjórnin brugðist á Íslandi, launahækkanir séu langt umfram framleiðniaukningu og allt of lítið aðhald hafi verið sýnt í ríkisfjármálum. „Við þessar kringumstæður verður þingið að sýna mikla ábyrgð í umræðu um fjárlög. Þetta er ekki tíminn til að auka enn frekar í ríkisútgjöldin, þó verkefnin séu vissulega brýn. Nú reynir einfaldlega á forgangsröðun.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook sem Þorsteinn birti í morgun.
Tilefnið var forsíðufrétt í Morgunblaðsins í morgun þar sem sagt var frá vaxandi áhyggjum innan ferðaþjónustunnar af styrkingu krónunnar og áhrifum þeirrar þróunar á greinina. Í þeirri frétt var haft eftir Friðriki Pálssyni, hótelstjóra Hótels Rangár, að ef ekkert verði að gert gæti mögulega stefnt í annað hrun hér á landi. Kjarninn fjallaði ítarlega stöðuna í íslensku hagkerfi í fréttaskýringu í gær.
Viðreisn tekur sem stendur þátt í stjórnarmyndunarviðræðum fimm flokka undir stjórn Pírata. Aðrir flokkar sem þátt taka eru Samfylking, Björt framtíð og Vinstri græn. Líkt og Kjarninn greindi frá því gær vilja Vinstri græn ráðast í fjárfestingar í velferð og innviðum fyrir allt að 50 milljarða króna og fjármagna þær fjárfestingar með nýjum sjálfbærum tekjum. Samkvæmt þeim kröfum þarf að ráðast í ýmiss konar skattahækkanir til viðbótar við hækkun á gjöldum sem tekin yrðu vegna nýtingar á auðlindum og nýrra gjalda sem hægt yrði að leggja á ferðaþjónustuna.
Tillögur Vinstri grænna um skattahækkanir eru ekki einungis til þess fallnar að auka tekjur ríkissjóðs heldur vill flokkurinn einnig nota skattahækkanir til að stuðla að auknum jöfnuði á Íslandi. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði á Alþingi í gær: „Við sjáum að færri Íslendingar eiga stærri hluta fjármagnsins í samfélaginu. Þrír fjórðu hlutar fjármagnsins liggja hjá ríkistu tíu prósentunum og það er það sem við ættum að vera að ræða hér. Við ættum að vera að ræða hér hvernig við ætlum að skattleggja þá sem eiga mest. Hvort sem er í gegnum einhvers konar stóreignaskatt eða í gegnum hækkaðan fjármagnstekjuskatt til að taka á þessari samþjöppun auðs og til að tryggja tekjur til að standa undir velferðarkerfinu; háskólunum, sjúkrahúsunum, framhaldsskólunum sem eru það mikilvæga jöfnunartæki sem við rekum saman.“