Skilanefnd Glitnis hafði í mars 2010 til skoðunar úttektir nokkurra félaga og einstaklinga á háum fjárhæðum úr peningamarkaðssjóði Glitnis, Sjóði 9, með það að augnamiði að rifta viðskiptunum. Samanlagt námu upphæðirnar 3,1 milljarði króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Fram kemur í blaðinu að tímasetningar viðskiptanna, stuttu fyrir þjóðnýtingu Glitnis 29. september og dagana fyrir hrun bankans 7. október árið 2008, hafi gefið tilefni til að skoða málin frekar.
Þetta kemur fram í gögnum skilanefndarinnar sem Fréttablaðið hefur undir höndum og vísar til í umfjöllun sinni. Stærstu viðskiptin sem voru til skoðunar hjá skilanefndinni voru úttektir félaga í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, stærsta eiganda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, eða eignarhaldsfélaga hennar Kristins og Fram, og námu rúmum milljarði króna, samkvæmt.
Einnig er tiltekin sérstaklega persónuleg úttekt Guðbjargar að upphæð 75 milljónir króna til viðbótar, samkvæmt frétt Fréttablaðsins. Þá eru nefnd viðskipti athafnamannsins Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, þremur dögum fyrir þjóðnýtingu bankans. Þá voru 500 milljónir króna teknar út og í skýringum við færsluna segir „Úttekt úr safni – millif[ært]. til Flórída“, að því er segir í frétt Fréttablaðsins.
Efni skjalsins tengdist ákvarðanatöku innan skilanefndarinnar um hvaða aðferðum ætti að beita við val á þeim viðskiptum sem mögulega ætti að rifta. Þar komu nokkrar aðferðir til greina, og segir: „Val eftir nöfnum ákveðinna aðila kemur einnig til greina. Þá kemur einnig til greina að velja þá út sem eru í þjónustu ákveðins þjónustufulltrúa,“ en um hvern ræðir er ekki tiltekið. Þessu fylgir fyrrnefndur listi, samkvæmt frásögn Fréttablaðsins, undir fyrirsögninni: Aðilar sem skoðaðir hafa verið m.t.t. innlausna rétt fyrir fall Glitnis hf. í byrjun október 2008.
Ásamt viðskiptum Guðbjargar og hennar félaga og Benedikts eru nefndar háar úttektir þjóðþekktra athafnamanna, þar á meðal Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur og Einars Arnar Jónssonar.