Ögmundur Jónasson, þá innanríkisráðherra, vísaði hópi lögreglumanna á vegum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, úr landi í ágúst 2011. Lögreglumennirnir ætluðu að reyna að lokka Julian Assange, stofnanda og stjórnanda Wikileaks, úr vari í sendiráði Ekvador í London en höfðu komið hingað undir fölsku flaggi.
Ögmundur lýsir þessu í viðtali við evrópska vefmiðilinn Katoikos.eu sem birtist í síðustu viku. RÚV.is greindi fyrst frá á íslensku.
Sem innanríkisráðherra vísaði Ögmundur lögreglumönnunum úr landi sumarið 2011. Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, greindi frá þessu í Kastljósviðtali árið 2013. Þeir hafi komið hingað undir því yfirskini að ráðleggja ætti íslenskum stjórnvöldum um yfirvofandi árásir á tölvukerfi ríkisins. The New York Times greindi síðar frá því að FBI hafi verið á höttunum eftir Wikileaks-liðum hér á landi.
Ætlunin hafi verið að nota Sigurð Inga Þórðarson, sem er betur þekktur undir nafninu Siggi hakkari, sem tálbeitu. Sigurður Ingi staðfesti þetta á fundi með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis árið 2013.
Spurður hvort hann hafi vísað FBI-mönnum úr landi vegna þess að hann grunaði að verkefni þeirra hér á landi var að koma Julian Assange fyrir kattarnef, staðfestir Ögmundur að svo hafi verið.
„Það sem gerðist í júní 2011 var að bandarísk yfirvöld komu að máli við okkur og gerðu okkur viðvart um að samkvæmt þeirra upplýsingum væru hakkarar að reyna að eyðileggja íslensk hugbúnaðarkerfi,“ segir Ögmundur í viðtalinu. „Þeir buðu hjálp. Ég var var um mig því ég átta mig á að hjálparhönd getur auðveldlega farið að tosa í strengi.“
„Síðar um sumarið, í ágúst, sendu þeir flugvél fulla af fulltrúum FBI til Íslands og vildu vera í samstarfi við okkur í aðgerðum sem ég skildi að hafi verið aðgerð til að koma Julian Assange og WikiLeaks fyrir kattarnef,“ segir Ögmundur. „Vegna þess að þeir höfðu ekki leyfi íslenskra stjórnvalda til að starfa á Íslandi og vegna þess að aðgerðir gegn WikiLeaks voru ekki á verkefnalistanum mínum, nema svo síður sé, þá skipaði ég svo fyrir að öllu samstarfi með þeim yrði hætt og ég gerði það einnig ljóst að FBI skyldi hætta öllum aðgerðum hér á landi strax.“
Ögmundur segist einnig hafa gert fulltrúum FBI ljóst að þeir ættu að yfirgefa Ísland. „Ég held að þeir hafi farið til annara landa, allavega til Danmerkur,“ segir hann.
Ögmundur Jónasson var þingmaður Reykvíkinga og í Suðvesturkjördæmi á árunum 1995 til 2016. Hann varð ráðherra í ráðuneytum Jóhönnu Sigurðardóttur á árunum 2009 til 2013. Hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu í Alþingiskosningunum í haust. Ögmundur talar í lengra máli um uppljóstrara og veraldarsýn sína í viðtalinu sem lesa má hér.