Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði hratt þegar opnað var fyrir viðskipti á markaði í morgun. Framvirkt verð á hráolíutunninni á markaði í Bandaríkjunum, hækkaði um tæplega 5 prósent, og kostar tunnan nú tæplega 54 Bandaríkjadali.
Samkvæmt fréttum Bloomberg er margir fjárfestar nú ráð fyrir að tunnan fari í 60 Bandaríkjadali áður en langt um líður. Ástæðan er sú að olíuframleiðsluríki hafa náð saman um að draga úr framleiðslu, sem svo leiðir til minna framboðs á markaði.
Olíuverð hefur farið hækkandi að undanförnu, en það náði lágpunkti í febrúar þegar tunnan kostaði 26 Bandaríkjadali. Rúmlega ári fyrr kostaði tunnan 110 Bandaríkjdali, og hefur olíuverð því sveiflast mikið.
Ellefu olíuframleiðsluríki, sem eru ekki aðilar að OPEC, samtökum olíuframleiðsluríkja, hafa samþykkt að feta í fótspor OPEC ríkja og minnka olíuframleiðslu sína til þess að ýta undir olíuverð.
Ríkin greindu frá því í gær að þau myndu minnka framleiðsluna um 558 þúsund tunnur á dag.
Opec greindi frá því í síðasta mánuði að aðildarríkin myndu minnka olíuframleiðslu og er þetta í fyrsta skiptið í fimmtán ár sem samkomulag næst milli ríkjanna um framleiðslu.
Opec-ríkin segjast ætla að minnka framleiðsluna um 1,2 milljónir tunna á dag og hefst það fyrirkomulag í janúar.
Meðal þeirra ríkja sem eru eru ekki í Opec eru Rússland, Azerbaijan, Oman, Mexíkó, Malasía, Súdan, Suður-Súdan og Barein.
Áhrifamesta ríkið innan OPEC er Sádí-Arabía, en til samtakanna tilheyra fjórtán olíuframleiðsluríki. Auk Sádí-Arabíu eru það Alsír, Angóla, Ekvador, Gabon, Indónesía, Íran, Írak, Kúveit, Líbía, Katar, Nígería, Sameinuðu arabísku furstadæmin, og Venesúela. Saman standa ríkin undir meira en 33 prósent af heimsframleiðslunni.
Ísland hefur notið góðs af lágu olíuverði þar sem það hefur haldið niðri verðbólguþrýstingi erlendis frá. Verðbólga mælist nú 2,1 prósent en hún hefur haldist fyrir neðan 2,5 prósent verðbólgumarkmið í næstum þrjú ár.