Hæstiréttur hefur ákveðið að frá byrjun árs 2017 verði upplýsingar um hagsmunatengsl hæstaréttardómara aðgengilegar á heimasíðu réttarins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hæstarétti.
Upplýsingarnar verða um eftirfarandi meginatriði:
- Aukastörf hvers og eins dómara ásamt því hvort greiðsla komi fyrir þau og þá úr hendi
hvers.
- Fasteignir í eigu dómara sem ætlaðar eru til annars en eigin nota fyrir hann og fjölskyldu
hans.
- Eignarhluta í hvers kyns félögum.
- Allar skuldir dómara sem ekki tengjast beinlínis öflun fasteignar til eigin nota.
- Aðild dómara að félögum sem ekki starfa með fjárhagslegu markmiði.
Upplýsingarnar munu miðast við stöðuna í ársbyrjun 2017 og verða framvegis uppfærðar um leið og tilefni er til, segir Hæstiréttur. Ef aðilar að einstökum dómsmálum telja sig þurfa að fá tilgreindar upplýsingar um eitthvert atriði varðandi dómara í málum þeirra geta þeir beint fyrirspurn til réttarins um það.
Upplýst var um það í síðustu viku að fimm hæstaréttardómarar hafi átt hluti í Glitni á árunum fyrir hrun. Allir dómararnir hafa samt sem áður dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.