Markaðsvirði Icelandair Group er nú 115 milljarða en í lok apríl var hann 189 milljarðar króna. Verðmiði Össurar er nú 155 milljarðar en var um 200 milljarðar í lok apríl. Þá stóð gengi bréfa félagsins í 500 en það var 350 miðað stöðu mála í morgun. Gengi bréfa Icelandair er nú 23,5 en í lok apríl var það tæplega 40.
Samtals hafa félögin lækkað um tæplega 120 milljarða króna í verði.
Óhætt er að segja að hluthafar þessara félaga hafi fengið að finna fyrir mikill dýfu á verði hlutafjár. Lífeyrissjóðir eru stærstu eigendur Icelandair. Lífeyrissjóður verslunarmanna á stærsta hlutinn, 14,7 prósent. Í tilfelli Össurar er meira en helmingur hlutahafa danskir sjóðir, og er William Demant Invest þeirra stærstur með rúmlega 42 prósent hlut.
Þrátt fyrir að lækkun á hlutafénu þá hefur rekstur þessara félaga beggja verið nokkuð stöðugur, en þau gera bæði upp í Bandaríkjadal.
Styrking krónunnar að undanförnu kemur að því leytinu til illa við félögin. Bandaríkjadalur kostar nú 112 krónur en kostaði um 136 krónur fyrir rúmlega ári. Styrking krónunnar gagnvart evru og Bandaríkjadal, tveimur stærstu viðskiptamyntum heimsins, hefur verið umtalsverð á síðustu mánuðum og nemur að meðaltali um 16 prósentum.
Icelandair og Össur eru ásamt Marel langsamlega stærstu félögin sem skráð eru á markað á Íslandi. Heildareignir Icelandair námu í lok þriðja ársfjórðungs 1,2 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega 140 milljörðum króna. Heildareignir Össurar á sama tíma voru tæplega 740 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega 94 milljörðum króna.
Eigið fé Icelandair nemur tæplega 500 milljónum Bandaríkjadala, eða ríflega 60 milljörðum króna, og hjá Össuri er eigið féð ríflega 450 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 55 milljörðum króna.