Rösklega 20 milljarðar króna fara um svarta hagkerfið vegna gististarfsemi í miðborg Reykjavíkur. Þetta segir Kristófer Oliversson, forstjóri Center Hotels, en fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag.
Hann rekur sex hótel í miðbænum í samkeppni við óskráðan rekstur sem geri stöðuna ójafna, að því er haft er eftir honum í Morgunblaðinu. Viðmið Kristófers er að um sex þúsund herbergi séu í þeim þrjú þúsund íbúðum í miðborginni sem eru leigðar út.
„Með áætlaðri nýtingu skili það 1,5 millj- ónum gistinátta sem ættu að gefa 21,5 milljarða króna í heildartekjur. Starfsemi þessari ættu að fylgja eðlilegar greiðslur svo sem virðisaukaskattur, tekjuskattur, tryggingagjald, fastaeignaskattar og fleira slíkt. Þessir peningar skili sér ekki í sameiginlega sjóði nema að hluta,“ segir í Morgunblaðinu. Þá segir Kristófer að þetta neðanjarðarhagkerfi sé orðið verulega umfangsmikið og aðilar sem í því starfi „moki inn“ peningum.
Kristófer óttast að hækkun gistináttagjalds til að fjármagna uppbyggingu grunnþjónustu í landinu vegna fjölgunar ferðmanna sé ekki góð hugmynd þar sem það auki enn á þenna ójafna mun þeirra sem fari að lögum og reglum, og síðan þessa stóra svarta hagkerfisins.
Allt bendir til þess að árið í ár verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu og fjöldi ferðamanna verði 1,7 milljónir. Spár gera ráð fyrir miklum vexti á næsta ári og að fjöldinn verði þá um 2,2 milljónir.