Sendiherra Rússlands í Tyrklandi var skotinn til bana á listasafni í Ankara fyrir stundu. Andrei Karlov sendiherra var við opnun á listasýningu og er sagður hafa verið að halda ræðu þegar byssumaður hrópaði "Allahu Akbar", sem þýðir Allah er mestur, og skaut á Karlov. Þetta er haft eftir ljósmyndara frá AP fréttastofunni, sem var viðstaddur.
Fregnir af málinu eru enn óljósar, en rússneskir og tyrkneskir fjölmiðlar greina nú frá því að Karlov sé látinn.
Fréttir herma að árásarmaðurinn hafi verið skotinn til bana á staðnum af lögreglu.
Guardian hefur það eftir embættismönnum í Tyrklandi að byssumaðurinn hafi komist inn á listasafnið með því að segjast vera lögreglumaður. Hann er sagður hafa skotið Karlov í bakið áður en hann skipaði öðru fólki að yfirgefa salinn og skaut Karlov aftur. Einhverjir viðstaddra segja að maðurinn hafi hrópað Aleppo á meðan á árásinni stóð, en það hefur ekki verið staðfest.
Á myndunum frá AP, sem Guardian birtir, sést hvar byssumaðurinn stendur fyrir aftan Karlov á meðan hann hélt ræðuna.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sagður hafa kallað Sergei Lavror utanríkisráðherra og yfirmenn leyniþjónustunnar á neyðarfund.