„Gleymið ekki Aleppo! Gleymið ekki Sýrlandi,“ sagði 22 ára gamall lögreglumaður, Mert Altintas, sem skaut sendiherra Rússlands í Tyrklandi, Andrey Karlov, til bana á listagallerýi í Ankara. Eftir skotbardaga við lögreglumenn lést morðinginn. Karlov hafði verið sendiherra Rússlands í Tyrklandi síðan 2013.
Ljósmyndari AFP fréttastofunnar náði ótrúlegum myndum af atburðinum og eftirleiknum, þar sem skelfingu lostnir gestir á staðnum leituðu skjóls eftir að Karlov hafði verið skotinn til bana.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, sagði í sjónvarpsávarpi að þessi atburður væri miðaður gegn samskiptum Rússlands og Tyrklands, en hann myndi ekki grafa undan þeim. Þvert á móti myndu bæði rússnesk og tyrknesk yfirvöld vinna saman að því að rannsaka aðdraganda þessa hrottalega morðs og berjast gegn hryðjuverkaógninni með enn meiri krafti. „Hryðjuverkamennirnir munu fá að finna fyrir því,“ sagði Pútín, þegar hann horfði alvörugefinn í sjónvarpsmyndavélarnar.
Erdogan forseti Tyrklands, hefur sagt að öryggismál verði tekin til endurskoðunar í Ankara eftir atburðinn og hefur boðað rannsókn á því hvernig það gat gerst, að morðinginn hafi komist inn í lögregluliðið í borginni undir fölsku flaggi.
Hann sagði enn fremur að morðið myndi ekki skaða samskipti Rússlands og Tyrklands til frambúðar. „Hryðjuverkamenn eru óvinurinn, og við munu berjast gegn honum sem aldrei fyrr,“ sagði Erdogan.
Auglýsing