Tólf eru látnir og 48 slasaðir eftir að vöruflutningabifreið var ekið inn í mannmergð á jólamarkaði í miðborgar Berlínar, skömmu eftir klukkan sjö í gærkvöldi að staðartíma.
Markaðurinn stendur við Kaiser Wilhelm minningarkirkjuna sem er tákn fyrir frið meðal Berlínarbúa.
Einn hefur verið handtekinn, en grunur leikur á því að hann hafi rænt vöruflutningabifreiðinni frá pólsku flutningafyrirtæki og keyrt henni inn í jólamarkaðinn. Mildi þykir að ekki fór enn verr þrátt fyrir að afleiðingarnar hafi verið skelfilegar, en mikill mannfjöldi var samankominn á jólamarkaðnum.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC, eru margir þeirra sem slösuðust með alvarleg meiðsl.
Enn hefur ekki verið opinberlega staðfest, að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða, en að sögn BBC hefur lögreglan í haldi mann sem talið er að beri ábyrgð á verknaðinum. Öruggt er talið að um viljaverk hafi verið að ræða þegar bifreiðinni var ekið í gegnum markaðinn.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði allt Þýskaland harma árásina og að hugurinn væri hjá þeim sem ætti um sárt að binda. Hún sagði of snemmt að segja til um hverjar ástæðurnar væru og hver bæri ábyrgð á verknaðinum. Allt yrði gert til að upplýsa um málið.