Hillary Clinton hlaut samtals 65.844.954 atkvæði í forsetakosningunum 8. nóvember síðastliðinn en Donald J. Trump 62.979.879, að því er fram kom á vef CNN í gærkvöldi. Lá þá lokaniðurstaðan úr öllum ríkjum Bandaríkjanna fyrir. Um 2,1 prósentustigs munur er því á fylgi þeirra á landsvísu, Hillary í hag, en Trump hafði þó yfirburðasigur sé horft til fjölda kjörmanna. Hillary fékk 48,2 prósent fylgi en Trump 46,1.
Frambjóðandi í Bandaríkjunum hefur aldrei fengið svo mörg atkvæði en ekki orðið forseti, og er niðurstaðan að því leytinu til söguleg. Kjörmenn staðfestu Trump sem réttkjörinn forseta á mánudagskvöld og voru þar 306 kjörmenn af 538 sem völdu hann.
Kosning Trumps er sú versta sem sigurvegari í forsetakosningunum hefur fengið, frá því Rutherford B. Hayes var kjörinn forseti árið 1876, númer nítján í röð Bandaríkjaforseta.
Trump hefur sjálfur sagt að hann hafi unnið með „yfirburðum“ og að heildaratkvæðin skipti ekki máli. Það séu kjörmennirnir sem skipti máli, og þar hafi hann verið með yfirburðastöðu. Þá sagði hann á Twitter að hann hefði líklega líka unnið heildaratkvæðakosninguna en barátta hans hafði þá verið öðruvísi, og úrslitin eftir því.