Fjárlög fyrir árið 2017 voru samþykkt seint í gærkvöldi á Alþingi með 27 atkvæðum, en 33 þingmenn greiddu ekki atkvæði. Þar með voru fjárlög samþykkt með aðeins 43 prósent atkvæða þingmanna.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði við lok þingsins að afgreiðsla fjárlaganna hefði sýnt styrk þings sem hefði starfað með ábyrgum hætti þrátt fyrir sérstakar aðstæður, en engin ríkisstjórn hefur enn verið mynduð eftir ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar féll í kosningunum 29. október síðastliðinn.
Á meðal mála sem kláruð voru á síðustu metrunum, var lífeyrismálið svonefnda. Alþingi samþykkti í kvöld frumvarp sem ætlað er að jafna lífeyrisréttindi á almennum og opinberum vinnumarkaði þrátt fyrir að skiptar skoðanir væru um það í þinginu.
Af 63 þingmönnum greiddu 38 frumvarpinu atkvæði sitt, fjórtán sögðu nei og átta sátu hjá.
Nokkrir þingmenn gerðu grein fyrir atkvæðum sínum og gagnrýndu flýti við afgreiðslu frumvarpsins. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna sagði að slæmt væri að gera viðlíka kerfisbreytingar með hraði, en Vinstri græn lögðust gegn frumvarpinu. Þá væri umhugsunarefni hversu miklar deilur séu um það bæði innan þings og utan.
Megin tilgangur frumvarpsins er að jafna eftirlaunarétt á almennum og opinberum vinnumarkaði, en mikil andstaða er við málið á meðal opinbera starfsmanna sérstaklega.