Fram kemur í blaðinu Dagens Industri í Svíþjóð í dag, að íslensku bankarnir, Íslandsbanki, Landsbankinn og Arion banki, horfi til þess að tengja sig meira inn á sænska markaðinn til framtíðar, bæði með skuldabréfaútgáfu og einnig með því að sækja hlutafé þangað.
Er meðal annars fjallað um það í blaðinu, að Arion banki horfi til tvískráningar á markað í gegnum kauphöllina á Íslandi og í Svíþjóð, en Nasdaq rekur báðar kauphallirnar.
Í umfjölluninni kemur fram að íslenska bankakerfið byggi á grunni innlendrar starfsemi hinna föllnu banka, Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans, og er fjallað nokkuð um það, að þeir hafi verið með umtalsverða starfsemi í Svíþjóð fyrir fall þeirra.
Í umfjölluninni er rætt við stjórnendur íslensku bankanna, meðal annars Jón Guðna Ómarsson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Íslandsbanka, og Hreiðar Bjarnason, sem gegnir sömu stöðu hjá Landsbankanum en er nú starfandi bankastjóri eftir að Steinþór Pálsson hætti. Þá er einnig fjallað um það að Monika Caneman, stjórnarformaður Arion banka, þekki vel til sænska markaðarins en hún starfaði í 24 ár hjá SEB bankanum, frá 1977 til 2001.
Miklar breytingar hafa orðið á íslensku fjármálakerfi á undanförnum árum en íslenska ríkið á nú um 80 prósent af öllu kerfinu. Þar af á ríkið 98 prósent hlut í Landsbankanum, Íslandsbanka að öllu leyti, Íbúðalánasjóð, Byggðastofnun, LÍN og smærri eignarhluti, beint og óbeint, í sparisjóðakerfinu sömuleiðis. Ríkið á 13 prósent í Arion banka en Kaupþing á 87 prósent hlutafjár, og vinnur að sölu á í það minnsta hluta eignar sinnar í bankanum, eins og áður hefur komið fram.