Launahækkunum alþingismanna, ráðherra, forseta og annarra opinberra starfsmanna verður að öllum líkindum ekki snúið af Alþingi. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, segist ekki búast við breytingum, í samtali við Morgunblaðið í dag.
„Ég býst ekki við því að hróflað verði við úrskurði kjararáðs, þrátt fyrir óánægju,“ er haft eftir Benedikt í frétt Morgunblaðsins í dag. Hann bendir á að með ákvörðunum kjararáðs 29. október síðastliðinn sé verið að leiðrétta alls konar inngrip undanfarinna ára.
Formenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi hafa hins vegar sent forsætisnefnd bréf þar sem nefndinni er bent á að fjalla um starfstengdar greiðslur til þingmanna. Fjallað var um málið í forsætisnefnd á miðvikudag og deilt um hvaða lausnir ættu að vera gerðar, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti lagafrumvarp í sumar þar sem hlutverki kjararáðs verður umbylt verði það samþykkt. Frumvarpið er nú til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Í frumvarpinu felast miklar breytingar á hlutverki kjararáðs og mörg hundruð embættismenn og opinberir starfsmenn verða færðir undan ákvörðunum ráðsins og veittur samningsréttur.
Kjarninn hefur sagt frá því að prestar séu meðal þeirra sem vilji áfram heyra undir ákvarðanir kjararáðs. Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar hefur ákveðið að taka ekki tillit til óska presta. Þetta kom fram í áliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um breytingar á lögum um kjararáð sem þingmenn allra flokka sem sæti eiga á þingi nema Pírata skrifa undir.
Samkvæmt frumvarpinu munu kjör biskups, vígslubiskups, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðast af samningum innan kirkjunnar í framtíðinni en þar til að samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um nýtt launafyrirkomulag mun nýtt ákvæði til bráðabirgða vera í lögum tryggja að launa þeirra verða áfram ákvörðuð af kjararáði.
Mikil umræða fór fram um laun embættismanna og þingmanna í aðdraganda kosninganna í haust. Launahækkanir til þingmanna og ráðherra tóku gildi á nýju kjörtímabili. Laun Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík, voru meðal þeirra sem hefðu hækkað en borgin hefur tekið ákvörðun um að hækka ekki laun borgarstjóra og borgarfulltrúa í takt við laun ráðherra. Enn á þó eftir að ákveða með hvaða hætti laun borgarfulltrúa og -stjóra verði ákvörðuð. Dagur er einn þeirra sem hefur gagnrýnt hækkanir launanna. Hann sagði fráleitt að laun toppanna í samfélaginu hækkuðu langt umfram þær línur sem sömu toppar hafi lagt varðandi kjaraþróun í landinu í nafni stöðugleika. „Þetta er óréttlátt og rangt og má ekki standa,“ sagði hann um ákvörðun kjararáðs.
Kjarninn sagði einnig frá því í sumar að í úttekt vikuritsins Vísbendingu komi fram að laun Alþingismanna og ráðherra hafi breyst lítið árið 2015 miðað við laun þerra árið 2008. Laun þeirra hafi dregist aftur úr og launaskrið þessara starfstétta er ekki jafn hratt og meðal forstjóra, bankamanna og næstráðenda, þe. þeirra sem að jafnaði eru með hæstu launin.
Uppfært kl. 13:16 27. desember 2016 – Ekki var sagt frá bréfi formanna flokkanna í þessari frétt í morgun. Því hefur nú verið bætt við.