Verðlagsnefnd búvara hefur ákveðið að heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum hækki um 1,7 prósent frá næstu áramótum. Ákvörðunin var samhljóma. Í frétt á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins segir að áhrifin verði eftirfarandi: Afurðastöðvaverð til bænda hækkar um 1,24 krónur á lítra mjólkur, úr 86,16 krónur í 87,40 krónur. Þá hækkar vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkur um 1,51 krónur. á lítra mjólkur. Samanlag mun heildsöluverð á hvern mjólkurlítra því hækka um 2,75 krónur. Verðhækkunin er sögð til komin vegna uppsafnaðra hækkana á vinnslu- og rekstrarkostnaði.
Í verðlagsnefnd sitja þrír fulltrúar ráðuneyta, tveir fulltrúar Bændasamtaka Íslands og tveir fulltrúar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði. Samkvæmt búvörulögum eiga samtök launþega að tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Annar þeirra á að vera tilnefndur af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB)og hinn af stjórn Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Hvorki BSRB né stjórn ASÍ hafa nýtt rétt sinn til að tilnefna fulltrúa í verðlagsnefnd búvara. Ástæðan er sú að þau vilja að mjólkuriðnaðurinn falli undir samkeppnislög, en hann er undanskilin þeim í dag.