Um 12.400 kaupsamningum var þinglýst árið 2016 á landinu öllu og námu heildarviðskipti með fasteignir tæplega 460 milljörðum króna, að því er fram kemur á vef Þjóðskrár. Meðalupphæð á hvern samning var um 37 milljónir króna.
Til samanburðar þá var veltan árið 2015 rúmlega 370 milljarðar, kaupsamningar tæplega 11.300 og meðalupphæð hvers samnings um 33 milljónir króna. Heildarvelta fasteignaviðskipta hefur því aukist um rúmlega 24 prósent frá árinu 2015 og kaupsamningum fjölgað um tæplega tíu prósent. „Sé litið til höfuðborgarsvæðisins stefnir heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga í um 350 milljarða króna, kaupsamningar verða um 7.950 og meðalupphæð kaupsamnings verður um 44 milljónir króna. Heildarupphæð þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015 var 285 milljarðar króna og fjöldi kaupsamninga var 7.369. Meðalupphæð samninga árið 2015 var um 38,6 milljónir króna. Heildarvelta á höfuðborgarsvæðinu hefur því aukist um tæplega 23 prósent og fjöldi kaupsamninga hefur aukist um tæplega átta prósent,“ segir í frétt á vef Þjóðskrár.
Flestar spár gera ráð fyrir því að fasteignaverð muni halda áfram að hækka, en á undanförnum fimm árum hefur það hækkað um 50 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Á árinu 2016 hækkaði fasteignaverð að meðaltali um tólf prósent á höfuðborgarsvæðinu, en mest var hækkunin miðsvæðiðs. Viðvarandi skortur á íbúðum á markaði, einkum litlum og meðalstórum, á meðan eftirspurn hefur aukist stöðugt, er meðal þess sem hefur þrýst verðinu upp. Þá hefur kaupmáttur aukist einnig og uppgangur ferðaþjónustunnar hefur einnig þrýst verðinu upp.