Árið 2016 var algert metár í umferðinni á Hringveginum en umferðin jókst um ríflega þrettán prósent „sem er gríðarlega mikil aukning á einu ári“ að því er segir á vef Vegagerðarinnar.
Aukningin er nærri tvöföld á við aukninguna sem næst kemur á milli áranna 2006 og 2007 sem var 6,8 prósent. „Aldrei fyrr hafa jafnmargir bílar farið um mælipunkta Vegagerðarinnar á Hringveginum. Sama á við um nýliðinn desembermánuð en umferðin jókst um ríflega 21 prósent í mánuðinum og hefur umferð yfir vetrarmánuðina aukist gríðarlega sem líklega má fyrst og fremst rekja til aukinnar vetrarferðamennsku,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.
Gera má ráð fyrir að mikil aukning í ferðaþjónustu eigi stóran hlut í þessar umferðaraukningu en um 1,7 milljónir ferðamanna heimsóttu landið á árinu 2016 og nam aukningin í það minnsta 30 prósentum milli ára. Endanlegar tölur um fjöldann eiga þó eftir að berast.
Umferðin í desember 2016 jókst gríðar mikið en niðurstaðan varð rúmlega 21 prósent aukning árið 2016 miðað við sama mánuð árið 2015. Þetta er mesta aukning milli desember mánuða frá því að þessi samantekt hófst. Umferð jókst á öllum landssvæðum en langmest mældist aukningin um mælisnið á Austurlandi eða um tæplega 52 prósent. Minnst jókst umferð um mælisnið um og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um 18 prósent.
Á vef Vegagerðarinnar segir að góð færð kunni einnig að hafa sín áhrif á það, að umferð hefur aukist jafn mikið og raun ber vitni núna á vetrarmánuðum. „Vafalaust eru nokkrar ástæður fyrir því að umferðin á Hringvegi eykst svona eins og hún hefur gert. Vegagerðin hefur bent á fylgni umferðar við hagvöxt, aukningu ferðamanna og síðan mætti ímynda sér að góð færð á vegum yfir vetrarmánuði hafi mikið að segja. Þetta kunna að vera þrjár meginástæður fyrir þessari miklu aukningu á síðasta ári. Það verður því afar fróðlegt að fylgjast með þróuninni á þessu ári og sjá hvort þessi mikla aukning haldi áfram eða hvort það hægi á henni,“ segir á vef Vegagerðarinnar.