Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, ætlar ekki að gefa kost á sér til endurkjörs á næsta landsþingi Knattspyrnusambands Íslands sem fram fer í Vestmannaeyjum 11. febrúar næstkomandi. Geir hefur verið formaður síðan 2007.
Guðni Bergsson, lögmaður og fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er einn eftir sem gefur kost á sér í embættið. Sagt hefur verið frá því að Björn Einarsson, formaður Víkings, hafi undanfarið íhugað að bjóða sig fram til formanns.
Í yfirlýsingu sem birtist á vef KSÍ í dagsegist Geir það vera góða stjórnunarhætti að stíga til hliðar og „kalla á endurnýjun í forystu samtaka eins og KSÍ“. „Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til endurkjörs á næsta ársþingi og bið samstarfsfólk í KSÍ, aðildarfélög KSÍ og forystumenn íslenskra knattspyrnufélaga að virða ákvörðun mína og sameinast um að kjósa nýjan formann íslenskri knattspyrnu til heilla. Ég er stoltur af starfi mínu og framlagi til íslenskrar knattspyrnu og hef ávallt haft hagsmuni heildarinnar í huga.“
Í viðtali í útvarpsþættinum Akraborginni á X-inu síðdegis í dag sagðist Geir vera fullviss um að hann hefði unnið formannsslaginn á móti Guðna Bergssyni. Þar sagðist hann hafa fundið fyrir miklum stuðningi við sig innan knattspyrnuhreyfingarinnar en að hann hafi á endanum tekið ákvörðun sína út frá því hvað sé „hollt og gott“ fyrir hann sjálfan og knattspyrnuhreyfinguna.
Geir hefur verið formaður KSÍ síðan árið 2007 og undir hans formennsku hefur landsliðum Íslands í knattspyrnu aldrei gengið eins vel. Skemmst er að minnast árangurs karlalandsliðsins á Evrópumeistarmótinu í sumar og árangurs kvennalandsliðsins undanfarin ár. Áður en Geir varð formaður sinnti hann ýmsum störfum innan KSÍ og var framkvæmdastjóri frá 1997 til 2007.
Rekstur KSÍ hefur einnig verið gagnrýndur á því tímabili sem hann hefur verið við stjórnvölinn. Árið 2009 varð fjármálastjóri sambandsins uppvís að því að hafa notað greiðslukort KSÍ á næturklúbbum í landsliðsferð og eytt miklum fjárhæðum í áfengi og næturbrölt.