Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sækist eftir því að verða fjármálaráðherra í ríkisstjórnarsamstarfi flokksins með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð, fari svo að flokkunum takist að mynda stjórn. Unnið er eftir því að ljúka stjórnarmyndun fyrir vikulok, segir í Fréttablaðinu í dag.
Þorsteinn Víglunsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frá Viðreisn sækjast bæði eftir því að verða ráðherrar, að því er segir í frétt Fréttablaðsins.
Eins og fram kom í gær í fréttaskýringu Kjarnans hafa stjórnarmyndunarviðræður gengið vel og hratt undanfarna daga.
Formenn flokkanna þriggja, Bjarni Benediktsson, Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé, og eftir atvikum helstu trúnaðarmenn þeirra, hafa fundað stíft í vikunni til að klára myndun ríkisstjórnarinnar. Fyrir liggur að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verður forsætisráðherra, og að sá flokkur fái helming ráðuneyta. Hin fimm ráðuneytin munu skiptast á milli Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, en eins og áður sagði er líklegast að Benedikt verður fjármála- og efnahagsráðherra.