Málflutningur í Hæstarétti í SPRON-málinu svokallaða fer fram í næsta miðvikudag, 11. janúar. Næstum eitt og hálft ár er síðan að héraðsdómur sýknaði fjóra fyrrverandi stjórnarmenn í sjóðnum og fyrrverandi forstjóri bankans af ákæru um umboðssvik.
Annað hrunmál, hið svokallaða Marple-mál, er einnig komið á dagskrá Hæstaréttar. Málflutningur fer fram í því 3. mars næstkomandi. Tveir fyrrverandi stjórnendur Kaupþings og einn hluthafi bankans voru sakfelldir í málinu í október 2015 en fyrrverandi fjármálastjóri hans var sýknaður.
Þá liggur fyrir að niðurstöðu í tveimur hrunmálum sem fékkst síðla árs 2016, hinum svokölluðu SpKef- og Aurum-málum, verður að mestu áfrýjað til Hæstaréttar.
Allir sýknaðir fyrir héraðsdómi
Í SPRON-málinu eru fjórir fyrrverandi stjórnarmenn og fyrrum forstjóri SPRON ákærðir fyrir umboðssvik vegna tveggja milljarða króna láns sem SPRON veitti Exista þann 30. september 2008, deginum eftir að Glitnir var þjóðnýttur og íslenska bankakerfið allt var á heljarþröm.
Hinir ákærðu eru Guðmundur Örn Hauksson, fyrrum sparisjóðsstjóri og síðar forstjóri SPRON, og stjórnarmennirnir Rannveig Rist, sem er forstjóri Rio Tinto Alcan, Margrét Guðmundsdóttir, stjórnarformaður N1, auk Ara Bergmanns Einarssonar og Jóhanns Ásgeirs Baldurs. Þeim er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga þegar þau samþykktu lánið.
Þau voru öll sýknuð þann 25. júní 2015 en niðurstöðunni var áfrýjað til Hæstaréttar.
Fjárdráttur og umboðssvik
Í Marple-málinu eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri bankans í Lúxemborg, Skúli Þorvaldsson fjárfestir og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, ákærð. Hreiðar Már og Guðný Arna eru ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús var ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum og Skúli var ákærður fyrir hylmingu og peningaþvætti af gáleysi. Málið, eins og embætti sérstaks saksóknara lagði það upp, snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki.
Þann 9. október 2015 voru Hreiðar Már, Magnús og Skúli sakfelldir í málinu. Skúli var sýknaður af ákæru um hylmingu en sakfelldur fyrir peningaþvætti af gáleysi. Hreiðar Már og Skúli hlutu sex mánaða dóma en Magnús var dæmdur í 18 mánaða fangelsi. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, var sýknuð af ákæru í málinu.
Sýknaður í héraði
Í SpKef-málinu er Geirmundur Kristinsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Sparisjóðsins í Keflavík, ákærður fyrir umboðssvik.Annars vegar var hann ákærður fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína til að lána félagi tengdu Suðurnesjamönnum 100 milljónir króna í formi yfirdráttarláns, sem tapaðist að fullu. Hins vegar á Geirmundur að hafa framselt stofnbréf í Sparisjóði Keflavíkur að verðmæti 683 milljónir króna til einkahlutafélagsins Fossvogshyls ehf., sem varð síðar í eigu sonar Geirmundar. Ekkert endurgjald var tekið vegna þessa en skuld á Fossvogshyl skráð í bækur dótturfélags sparisjóðsins. Ekkert fékkst greitt upp í skuldina utan tæplega 50 milljón króna arðgreiðslu á árinu 2008.
Ákæruvaldið krafðist þess fyrir héraðsdómi að Geirmundur yrði dæmdur til að sæta óskilorðsbundinni fangelsisrefsingu í fjögur ár hið minnsta. Hann var hins vegar sýknaður 4. nóvember 2016. Þeirri niðurstöðu hefur nú verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Einum sýknudómi áfrýjað en öðrum ekki
Aurum-málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited. Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni. Héraðssaksóknari, áður sérstakur saksóknari, vill meina að Jón Ásgeir hafi þannig fengið hlut í ávinningi af brotinu og notið hagnaðarins.
Málið hefur farið tvívegis fyrir héraðsdóm. Í fyrra skiptið voru allir sakborningar sýknaðir. Ríkissaksóknari fór hins vegar fram á ómerkingu á meðferð málsins á grundvelli þess að einn meðdómari málsins hefði verið vanhæfur til að fjalla um það. Umræddur meðdómari er Sverrir Ólafsson, fjármálaverkfræðingur, en hann er bróðir Ólafs Ólafssonar, kenndum við Samskip, sem hlaut þungan fangelsisdóm vegna aðildar sinnar að Al-Thani fléttunni svokölluðu. Þetta lá ekki fyrir við meðferð málsins í héraði. Hæstiréttur féllst á það.
Málið var aftur tekið fyrir í héraðsdómi síðastliðið haust og dómur féll 24. nóvember. Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Magnús Agnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, voru dæmdir sekir. Lárus fékk eins árs fangelsisdóm en Magnús Agnar tveggja ára dóm. Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá bankanum, og Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi aðaleigandi Glitnis, voru hins vegar sýknaðir í málinu.
Bæði Lárus og Magnús Arnar áfrýjuðu niðurstöðunni til Hæstaréttar. Ríkissaksóknari ákvað að áfrýja sýknu Jóns Ásgeirs þangað en ekki sýknu Bjarna.