VÍS hefur sent tilkynningu til Kauphallarinnar þar sem greint er frá því að það hafi keypt 21,8 prósenta hlut í Kviku banka og nemur heildarkaupverðið um 1.655 milljónum króna. Er kaupverðið greitt að fullu með reiðufé, að því er segir í tilkynningu.
Seljendur á hlutum í Kviku eru Titan B ehf. (7,27%), Ingimundur hf. (6,61%), Fagfjárfestasjóðurinn Norðurljós (5,77%), Kvika banki hf. (1,27%) og M-804 ehf. (0,92%).
Sé mið tekið af verðinu í viðskiptunum, er heildarvirði Kviku um 7,5 milljarðar króna.
Eftir þriðja ársfjórðung 2016 námu fjárfestingareignir VÍS 34,4 milljörðum og eignir samtals 47,8 milljörðum. Eigið fé félagsins var 15,5 milljarðar og eiginfjárhlutfall 32,4%. Hluthafar VÍS eru um 800 talsins, stórir og smáir. Lífeyrissjóðir eru þar umsvifamestir og eiga samtals um 42% hlutafjár með beinum hætti.
Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air, er eigandi eignarhaldsfélagsins Títan B. Skúli hefur verið á meðal stærstu eigenda bankans allt frá því að hann leiddi hóp fjárfesta sem keyptu MP banka í apríl 2011. MP banki sameinaðist Straumi fjárfestingabanka fjórum árum síðar undir nafninu Kvika.
Í tilkynningu til kauphallar segir Jakob Sigurðsson að kaupin stuðli að dreifingu áhættu í rekstri félagsins. „Starfsemi tryggingafélaga byggist á tveimur meginstoðum; vátryggingastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi. Auk þess að vera gott fjárfestingatækifæri stuðla kaupin að dreifingu áhættu í eignasafni félagsins og þjóna þannig hagsmunum VÍS vel til lengri tíma. Af því njóta bæði viðskiptavinir og hluthafar góðs.“
Sé mið tekið af gengi bréfa VÍS á markaði í dag nemur markaðsvirði félagsins um 20 milljörðum króna.