Flestar tölur sýna að 2016 var algjört metár í ferðaþjónustunni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Hátt í 1,8 milljónir ferðamanna komu til landsins, eða um 40 prósent fleiri en árið 2015. Í
nýliðnum desember fóru nærri 125 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð,
eða 54 þúsundum fleiri en í sama mánuði árið áður.
Aukningin er 76 prósent á milli ára á þessum árstíma. Frá árinu 2010 hefur fjöldi ferðamanna til landsins í desember sexfaldast. Aldrei hefur mælst jafn mikil aukning á milli ára. Fjölgun ferðamanna sést einnig í komum skemmtiferðaskipa. Árið 2016 voru 114 skipakomur til Reykjavíkur og með þeim um 99 þúsund farþegar. Á þessu ári stefnir allt í met, bæði í komum skemmtiferðaskipa og farþegafjölda. Þannig hafa 134 skipakomur til Reykjavíkur verið bókaðar og um 128 þúsund farþegar um borð, að því er fram kemur í Morgunablaðinu.
Á árinu 2010 komu til landsins 454 þúsund ferðamenn. Vöxturinn hefur því verið með nokkrum ólíkindum. Spár fyrir næsta ár gera flestar ráð fyrir mikilli fjölgun, og að erlendir ferðamenn verði í það minnsta 2,2 milljónir.