Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, sagði að svör sín í fréttum RÚV í gær um tímalínu atburða í tengslum við birtingu skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, hafi ekki verið nákvæm og baðst hann afsökunar á þeim.
Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í fréttum RÚV í kvöld.
Hann sagðist ekki hafa séð skýrsluna fyrr en hann fékk kynningu á henni 5. október, eða rúmum þremur vikum fyrir kosningar sem fóru fram 29. október.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í dag, þá var skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum tilbúin í september, og henni skilað til ráðuneytisins þá. Samkvæmt svörum sem Kjarninn fékk við upphaflegri fyrirspurn sinni um málið, í byrjun nóvember, var skýrslan kynnt í ráðuneytinu í byrjun október.
Kjarninn greindi frá því á föstudaginn að fram kemur í skýrslunni að henni hafi verið skilað þegar „nokkuð var liðið á september.“ Á forsíðu skýrslunnar kemur einnig fram tímasetningin september 2016, en það er með hvítu letri svo tímasetningin er ógreinileg.
Þegar skýrslan hafði verið birt á föstudaginn sendi Kjarninn tvær fyrirspurnir til fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Annarri var beint til Bjarna Benediktssonar, starfandi fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem óskað var eftir upplýsingum um og skýringum á því hvers vegna birting á skýrslu starfshópsins tafðist fram til þess dags.
Bjarni sagði í viðtali við RÚV að hann hefði ekki farið nákvæmlega rétt með tímalínu atburða í tengslum við skil og birtingu á skýrslunni. „Jájá, þetta var kannski ekki alveg nákvæm tímalína hjá mér eins og ég fór yfir þetta í gær,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu. „En það sem ég átti við, og var í huga mér, var það að þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér, sem er þarna já fyrstu vikuna í október, þá standa yfir samningar um þinglok og það er beðið eftir því, og reyndar krafa stjórnarandstöðunnar að við ættum að vera löngu farin heim, og sú hugsun mín að málið gæti fengið efnislega meðferð í þinginu var í raun og veru óraunhæf á þeim tíma,“ sagði Bjarni í viðtali við RÚV, og bætti við: „Í huga mínum í gær þá hugsaði ég með mér, ja mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því.“