Gjaldeyrisinnstreymi á árinu 2016 var mikið, velta á gjaldeyrismarkaði jókst og gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði talsvert. Veltan jókst um 42 prósent frá fyrra ári og var hlutur Seðlabanka Íslands í veltunni um 55 prósent.
Þetta kemur fram í samantekt Seðlabankans þar sem fjallað er um stöðuna á gjaldeyrismarkaði á árinu 2016. Seðlabankinn keypti gjaldeyri fyrir 386 milljarða króna á árinu og beitti sér þannig, að það dróu úr styrkingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Þrátt fyrir kaup Seðlabanka Íslands styrktist gengið um 18,4 prósent, og má gera ráð fyrir að það hefði styrkst verulega til viðbótar ef ekki hefði komið til mikilla gjaldeyriskaupa Seðlabanka Íslands.
Velta á millibankamarkaði nam 702 milljörðum króna á árinu 2016. Framan af árinu keypti Seðlabankinn gjaldeyri með það einkum að markmiði að koma gjaldeyrisforða í æskilega stærð í aðdraganda almennrar losunar fjármagnshafta. „Eftir að það markmið náðist vó þyngra að draga úr sveiflum í gengi krónunnar og forðast að það hækkaði of mikið áður en mikilvæg skref að losun fjármagnshafta voru tekin,“ segir í samantekt Seðlabankans.
Gangi spár eftir á þessu ári, þá verður gjaldeyrisinnstreymi - ekki síst frá erlendum ferðamönnum - síst minna á þessu ári. Á síðasta ári komu 1,8 milljónir erlendra ferðamanna til landsins en samkvæmt spám greinenda gæti fjöldinn á þessu ári farið í 2,3 milljónir, og síðan enn meira á árinu 2018.