Forseti Mexíkó, Enrique Pena Nieto, hafnaði því algjörlega í gær að Mexíkó muni borga fyrir byggingu múrs á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.
Nieto lýsti þessu yfir á árlegum fundi sínum með sendiherrum Mexíkós í forsetahöllinni, en í ræðu sinni brást hann meðal annars við því sem Donald J. Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, sagði á blaðamannafundi sínum skömmu áður. Á meðal þess sem Trump sagði var að hann ætlaði sér að skattlegja fjármagnsflutning fyrirtækja frá Mexíkó út úr Bandaríkjunum, og nota ávinninginn í að reisa múr á landamærunum.
Nieto hafnaði þessum hugmyndum og sagði þær algjörlega á skjön við gildandi fríverslunarsamninga. Hann sagðist enn fremur ætla að leita leiða til þess að eiga uppbyggileg samskipti við Trump og stjórn hans, og sagði fullviss um að þegar væri búið að skoða málin ofan í kjölinn þá væri það sameiginlegur skilningur stjórna í báðum löndum, að viðhalda góðum samskiptum ríkjanna.
Nieto var harðorður þegar kom að hugmyndum að láta almenning í Mexíkó greiða fyrir byggingu múrsins. „Við munum aldrei sætta okkur við neitt sem vegur að virðingu okkar sem sjálfstæðri þjóð í sjálfstæðu ríki,“ sagði forsetinn. „Það blasir við að okkur mun greina á við næstu ríkisstjórn Bandaríkjanna um ýmislegt, til dæmis um múrinn, sem Mexíkó mun að sjálfsögðu ekki fjármagna.“