Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 163 milljarða króna á árinu 2016. Í Bandaríkjadölum talið nemur það um 1,4 milljörðum. Í lok ársins nam gjaldeyrisforðinn 815 milljörðum króna eða um 7,2 milljörðum Bandaríkjadala. Í lok árs svaraði gjaldeyrisforðinn til um 34 prósent af landsframleiðslu og hann dugði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í ellefu mánuði.
Gjaldeyrisinnstreymi á árinu 2016 var mikið, velta á gjaldeyrismarkaði jókst og gjaldeyrisforði Seðlabankans stækkaði talsvert, eins og fram kom í frétt á vef Kjarnans í gærkvöldi. Veltan jókst um 42 prósent frá fyrra ári og var hlutur Seðlabanka Íslands í veltunni um 55 prósent.
Þetta kemur fram í samantekt Seðlabankans þar sem fjallað er um stöðuna á gjaldeyrismarkaði á árinu 2016. Seðlabankinn keypti gjaldeyri fyrir 386 milljarða króna á árinu og beitti sér þannig, að það dróu úr styrkingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum.
Þrátt fyrir kaup Seðlabanka Íslands styrktist gengið um 18,4 prósent, og má gera ráð fyrir að það hefði styrkst verulega til viðbótar ef ekki hefði komið til mikilla gjaldeyriskaupa Seðlabanka Íslands.