Matsfyrirtækið Standard & Poors hækkaði í dag lánshæfismat fyrir ríkissjóð í A- úr BBB+, og eru horfur eru metnar stöðugar. Meginástæða hækkunarinnar er sú að hagkerfið stendur traustari fótum nú en áður. Ytri staðan hefur batnað, og flestir hagvísar vísa í rétta átt.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins.
Í frétt matsfyrirtækisins kemur fram að sterk erlend staða Íslands er einn af lykilþáttunum í hækkun lánshæfismatsins. Mikill afgangur hefur verið af viðskiptajöfnuði og óskuldsettur hluti gjaldeyrisforðans hefur vaxið verulega síðasta árið, en í árslok nam hann yfir 800 milljörðum króna eða sem nemtu tæplega 35 prósent af landsframleiðslu.
„Greiðslujöfnuður Íslands hefur farið fram úr væntingum S&P. Þá vega mikill hagvöxtur, lækkun skuldahlutfalls og sterk staða ríkisfjármála, einnig þungt í hækkun matsins. Einnig bendir lánshæfisfyrirtækið á að Ísland er með háar þjóðartekjur á mann,“ segir í frétt ráðuneytisins.
S&P gæti hækkað lánshæfismat ríkissjóðs frekar ef fjármagnshöft verða losuð að fullu án þess að fjármálalegum stöðugleika verði ógnað eða hafa neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð, segir í umfjöllun fyrirtækisins. Lánshæfismatið gæti einnig hækkað frekar ef skuldahlutfall hins opinbera lækkar hraðar en gert er ráð fyrir í mati S&P.
Lánshæfismatið gæti hins vegar lækkað ef nýlegar launahækkanir leiða til ofhitnunar hagkerfisins.
Fyrirtækið hækkaði síðast lánshæfismat ríkissjóðs í janúar 2016. Ríkissjóður er nú metinn í A flokki hjá bæði Moody´s og S&P, en ríkissjóður var síðast metinn í A flokki hjá S&P í október 2008.