Barack Obama bandaríkjaforseti stytti dóm yfir uppljóstraranum Chelsea Manning í kvöld. Manning hefur setið í fangelsi í rúm sex ár fyrir að leka þúsundum gagna í eigu bandaríska ríkisins til Wikileaks. Gögnin vörpuðu meðal annars ljósi á aðgerðir hersins þar sem óbreyttir borgarar voru drepnir af hermönnum Bandaríkjanna.
Reiknað er með því að Manning verði látin laus 17. maí. Helsti talsmaður Wikileaks, Julian Assange, var nýbúinn að lýsa því yfir að hann myndi gefa sig fram við yfirvöld í Bandaríkjunum ef Manning yrði náðuð. Nú hefur það gengið eftir.
Wikileaks hafa fagnað náðuninni á Twitter síðu sinni.
Talið er ólíklegt að Donald J. Trump, sem tekur við embætti á föstudag, hugnist þessi ákvörðun forvera síns en hann hefur heimild til að snúa ákvörðuninni ef hann vill.