„Ásakanirnar sem fram koma í kærunni eru rangar.“ Þetta segir Heiðar Ásberg Atlason hrl. í yfirlýsingu þar sem hann hann hafnar því alfarið að atriði sem fram koma í kæru Skiptastjóra EK 1923 ehf., Sveins Andra Sveinssonar hrl., eigi við rök að styðjast. Hann segir að kæran, sem birt var í heild sinni á vef Kjarnans í morgun, vera ekki í takt við staðreyndi málsins, og að þeim upplýsingum hafi verið komið til skila.
„Kæran virðist sett fram í fljótfærni enda eru fullnægjandi skýringar á öllum þeim atriðum sem hún tekur til. Það vekur sérstaka furðu að enginn áhugi virðist hafa verið hjá viðkomandi skiptastjóra að fá þessar skýringar fram áður en hann lagði fram kæruna. Undirritaður hefur lagt fram aðfinnslur við Héraðsdóm Reykjavíkur, fyrir hönd umbjóðenda minna, vegna starfa skiptastjórans auk þess sem kvörtun hefur verið send til úrskurðarnefndar Lögmannafélags Íslands. Þá er ekki útilokað að frekari úrræðum verði beitt gegn skiptastjóranum haldi hann þessum rangfærslum til streitu,“ segir Heiðar Ásberg í yfirlýsingu.
Eins og greint var frá í morgun þá hefur Sveinn Andri Sveinsson hrl. skiptastjóri EK 1923 ehf., sem áður hét Eggert Kristjánsson Hf. heildverzlun, kært Skúla Gunnar Sigfússon, oft kenndan við Subway, og Guðmund Hjaltason, til embættis Héraðssaksóknara vegna meintra brota þeirra í tengslum við gjörninga EK og félagsins Sjöstarnan. Eru þeir kærðir fyrir auðgunarbrot, skjalabrot og ranga skýrslugjöf, að því er segir í kærunni sem er frá 9. janúar síðastliðnum.
Skúli var eigandi í báðum félögum en Guðmundur var framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar, samkvæmt kæru, þegar meint brot áttu sér stað.
Í kærunni, er þeim lýst þannig, að þeir hafi með „ólögmætum hætti tileinkað sér fyrir hönd Sjöstjörnunnar ehf. 21,3 milljónir króna með því að láta starfsmann Íslandsbanka millifæra þann 15. Mars 2016 millifæra þá fjárhæð af bundinni bankabók í eigu EK inn á reikning Sjöstjörnunnar,“ eins og orðrétt segir í kærunni. Með þessum hætti eru þeir sakaðir um að hafa haldið eftir fjármunum með ótilhlýðilegum hætti frá öðrum kröfuhöfum þrátt fyrir að gjaldþrot félagsins væri yfirvofandi.
Kæran er birt hér í heild sinni, en í lok hennar er gerð krafa um refsingu og að hugsanlega geti komið til einkaréttarlegrar kröfu á hendur þeim.