Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, gagnrýnir Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, harðlega fyrir ræðuna sem May hélt fyrr í dag um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Skotland kaus ekki þá leið sem birtist í áætlunum May um útgöngu ríkisins úr ESB og áætlun Bretlands er ekki í hag skosku þjóðarinnar, segir Sturgeon meðal annars í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni. „Þrátt fyrir öll fallegu orðin þá er orðið ljóst að Bretland stefnir í hart Brexit, sem gæti haft í för með sér efnahagslegar hörmungar. Ákvarðanir eru ekki teknar rökrétt með hagsmuni landsins í huga, heldur af þráhyggju harða hægrisins í Íhaldsflokknum,“ segir Sturgeon.
Hún segir einnig vera að koma betur og betur í ljós málið sem liggur til grundvallar í útgöngu Bretlands, og það sé spurningin um það hvernig ríki Bretland ætli að vera. Forsætisráðherrann hafi sýnt á spilin í lok ræðu sinnar þegar hún talaði um möguleikann á því að Bretland verði láglauna- og lágskattaríki með lítil ríkisafskipti. Afleiðingarnar verði þær að allir, nema kannski þeir ríkustu, verði verr settir en nú er.
„Skosk stjórnvöld settu fram málamiðlunartillögur fyrir jól sem myndu vernda hagsmuni Skotlands – og við gerðum það ljóst að það mikilvægasta sé aðild að innri markaðnum þegar kemur að efnahagslegum og frekari þjóðarhagsmunum Skotlands.“ Á meðan verið sé að ræða þessar tillögur, og Theresa May hafi síðast í dag lofað að skoða tillögur Skota, hafi stjórnvöld ekki sýnt fram á það með neinum hætti að verið sé að hlusta á skosk stjórnvöld eða að hagsmunir Skotlands séu teknir til greina.
„Það verður að breytast ef það á að vera einhver trú á því að hægt sé að tryggja hagsmuni Skotlands innan Bretlands. Og ef Bretland ætlar ekki að vera áfram á innri markaðnum, eins og forsætisráðherrann segir nú, þá verður að skoða tillögur okkar um hvernig hægt er að leyfa Skotum að vera þar áfram alvarlega.“
Skosk stjórnvöld muni því áfram taka ákvarðanir með yfirveguðum og ábyrgum hætti, en það verði að vera morgunljóst að stjórnvöld í Bretlandi geti ekki beitt sér gegn vilja og hagsmunum Skotlands, og neita öllum tilraunum til málamiðlana.
„Það virðist vera sem íhaldsstjórnin í Westminster haldi að hægt sé að gera Skotlandi hvað sem er og komast upp með það. Hún verður að skilja hversu rangt hún hefur fyrir sér í því. Bresk stjórnvöld mega ekki komast upp með að taka okkur út úr Evrópusambandinu og innri markaðnum, án þess að skeyta um áhrifin á hagkerfið okkar, störfin, lífsgæði og orðspor okkar sem opins, frjálslynds lands, án þess að Skotland hafi möguleika á því að velja á milli þess og annars konar framtíðar.“ Með ummælum sínum í dag hafi Theresu May tekist að gera valið líklegra fyrir Skota, þeir verði að hafa möguleika á sjálfstæði.