Hæstiréttur sýknaði í dag fyrrverandi forstjóra, Guðmund Hauksson, og fimm stjórnarmenn SPRON af ákæru um umboðssvik við veitingu tveggja milljarða króna láns sem Exista fékk skömmu fyrir hrun. Stjórnarmennirnir voru þau Ari Bergmann Einarsson, Jóhann Ásgeir Baldurs, Margrét Guðmundsdóttir og Rannveig Rist. Öll voru þau sýknuð bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og í Hæstarétti.
Í ákæru voru þau sögð hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga með um tveggja milljarða króna láni til Exista, skömmu fyrir hrun fjármálakerfisins á Íslandi.
Hæstiréttur féllst ekki á málatilbúnað ákæruvaldsins. Bent er á í dómnum að gögn sem stjórnin hafði aðgang hafi gefið til kynna að staða Exista hafi verið strek. Samkvæmt árshlutauppgjöri Exista frá því skömmu áður en lánið var veitt hafi eiginfjárstaða fyrirtækisins verið afar sterk og endurfjármögnun tryggð átján mánuði fram í tímann. Í dómnum segir orðrétt: „Ásetningur er saknæmisskilyrði eftir 249. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt árshlutauppgjörinu var eiginfjárstaða B hf. afar sterk þremur mánuðum áður en umrætt lán var veitt til eins mánaðar og endurfjármögnun tryggð fram í desember 2009. Að framangreindu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, er ósannað af hálfu ákæruvaldsins, sbr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, að hinir ákærðu stjórnarmenn hafi af ásetningi misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum með því að veita B hf. lán það sem hér um ræðir og þannig gerst brotlegir við 249. gr. almennra hegningarlaga. Verður því niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu þeirra staðfest. Þá verður ákærði Y sýknaður af sakargiftum með vísan til forsendna héraðsdóms. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.“