Fjórum fréttamönnum 365 miðla hefur verið stefnt vegna umfjöllunar þeirra um Hlíðamálið svokallaða. Það eru mennirnir tveir sem sakaðir voru um nauðgun í málinu sem stefna fréttamönnunum. RÚV segir frá þessu og hefur stefnuna undir höndum sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.
Í stefnunni er farið fram á að fréttamennirnir greiði mönnunum samtals 12,5 milljónir króna í miskabætur hvorum um sig. Einnig er farið fram á að 32 ummæli sem birtust í Fréttablaðinu, á Vísi.is, í fréttum Bylgjunnar og Stöðvar 2 verði dæmd dauð og ómerk. Öll féllu ummælin dagana 5. til 9. nóvember 2015. Einnig kemur fram í stefnunni að öðrum manninum hafi verið gert að hætta námi við Háskólann í Reykjavík vegna málsins og hinn hafi misst vinnuna. Báðir hafi glímt við langvarandi kvíða og þunglyndi vegna málsins.
Umræddir fréttamenn eru Nadine Guðrún Yaghi, Heimir Már Pétursson, Þórhildur Þorkelsdóttir og Stefán Rafn Sigurbjörnsson, að því er fram kemur í frétt mbl.is af stefnunni.
Samkvæmt því sem fram kemur á vef RÚV segir í stefnunni að vegna fréttaflutnings 365 hafi allt farið á annan endann. Fréttamaður 365 miðla hafi farið að húsi eins mannanna og flutt frétt úr stigagangi heimilis hans og birt myndir af húsinu. Á tímabili hafi mennirnir óttast um líf sitt vegna múgæsings sem myndast hafði í kjölfar fréttaflutningsins.
Forsaga málsins er sú að Fréttablaðið birti forsíðufrétt í nóvember 2015 undir fyrirsögninni: „Íbúð í Hlíðunum útbúin til nauðgana“. Áður hafði verið sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur kærðu tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“. Fram kom í fréttinni að mönnunum hafði svo verið sleppt að lokinni skýrslutöku.
Mikil reiðialda reis í kjölfar fréttarinnar, boðað var til mótmæla fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu og mennirnir voru nafngreindir á samfélagsmiðlum og birtar af þeim myndir.
Rannsóknir á nauðgunarkærunum fóru á borð héraðssaksóknara og lét hann bæði málin niður falla. Annar maðurinn hafði einnig kært aðra konuna fyrir kynferðisbrot en það mál var líka látið niður falla.
Vilhjálmur Vilhjálmsson er lögmaður mannanna tveggja sem nafngreindir voru á samfélagsmiðlum eftir birtingu fréttarinnar. Í byrjun febrúar í fyrra ítrekaði Vilhjálmur kröfur sínar til Fréttablaðsins um að það greiði umbjóðendum sínum 20 milljónir í miskabætur fyrir fréttina og biðjist afsökunar vegna umfjöllunar blaðsins um málið. Fréttablaðið neitaði þessum kröfum og hefur Kristín Þorsteinsdóttir, ritstjóri blaðsins, sagt að blaðið standi við fréttina.
Fram kemur í stefnunni að fréttamönnunum fjórum hafi verið boðið að ljúka málinu án aðkomu dómstóla en að kröfubréfum hafi verið hafnað.
Vilhjálmur hefur einnig sent tugum einstaklinga kröfubréf þar sem krafist var afsökunarbeiðni og miskabóta vegna ummæla sem féllu á samfélagsmiðlum eða í fjölmiðlum um málið.