Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er tilbúinn til þess að funda með Donald Trump sem tók við embætti forseta Bandaríkjanna í gær. Þetta hafa fjölmiðlar eftir Dmitry Peskov, talsmanni Kremlar í Moskvu, í dag og að undirbúningur fyrir slíkan muni taka marga mánuði í undirbúningi en ekki vikur.
Fyrir réttri viku síðan birti breska dagblaðið The Sunday Times fréttir af því að Trump vilji funda með Pútín í Reykjavík. Með fundinum var Trump sagður vilja horfa til áhrifanna sem leiðtogafundur Ronalds Reagan og Mikhail Gorbatsjov hafði. Sá fundur fór fram í Reykjavík árið 1986, eins og kunnugt er. Íslensk yfirvöld höfðu ekki haft neina afspurn af undirbúningi fundar hér á landi. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sagði íslensk stjórnvöld líta málið jákvæðum augum.
Undanfarin ár hafa samskipti Bandaríkjanna og Rússlands minnkað og orðið kaldari en þau hafa verið eftir fall Sovétríkjanna árið 1991. Í valdatíð Baracks Obama, sem lét af forsetaembættinu í gær, hafa Bandaríki og Rússland eldað grátt silfur, meðal annars vegna átaka í Úkraínu og í Sýrlandi.
„Þetta mun ekki gerast á næstu vikum, vonum það besta og að fundurinn geti átt sér stað á næstu mánuðum,“ er haft eftir Peskov. Það væri hins vegar rangt að halda að samskipti ríkjanna yrðu laus við allar „mótsagnir og ágreining“ í valdatíð Trumps. „Þetta eru nefnilega tvö stærstu ríki heims. Og við getum ekki verið til án þess að árekstrar verði.
Rússnesk stjórnvöld eru sögð hafa haft áhrif á kosningabaráttuna í Bandaríkjunum í fyrra með því að dreifa fölskum upplýsingum og áróðri. Vladimír Pútín er sagður hafa fyrirskipað tölvuárásir á framboð Hillary Clinton til þess að tryggja sigur Donalds Trump. Trump hafði talað vel um Pútín í aðdraganda kosninganna og sagst vera sá eini sem gæti lagað samskipti Bandaríkjanna við Rússland.
Í Rússlandi hafa hátt settir ráðamenn, Pútín þar á meðal, lofað Trump opinberlega og sagst vænta þess að hann muni aflétta viðskiptaþvingunum vesturveldanna gegn Rússlandi sem fyrst voru settar þegar Rússland hrifsaði til sín Krímskaga af Úkraínu.
Pútín hefur enn ekki hringt í Donald Trump eftir að sá síðarnefndi tók við stjórnartaumunum í gær. Símtalið mun eiga sér stað á næstu dögum. Pútín er sagður hafa sleppt því að horfa á innsetningarathöfnina í Washington; það hafi verið allt of tímafrekt verkefni.