Fjölmiðlafulltrúi Donalds J. Trump, Sean Spicer, segir að stefna bandarískra stjórnvalda sé sú að leggja 20 prósent skatt á allar vörur sem fluttar eru til Bandaríkjanna frá Mexíkó. Trump hefur þegar tilkynnt um að veggur verði reistur á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó, en talið er að kostnaður við hann sé í það minnsta 10 milljarðar Bandaríkjadala.
Spicer setti skattinn í samhengi við byggingu múrsins og sagði að líta mætti þannig á, að skatturinn myndi fjármagna gerð múrsins. „Með þessari skattlagningu fáum við tíu milljarða dollara á ári,“ sagði Spicer. Bandaríkjamarkaður er langsamlega mikilvægasti markaður fyrirtækja í Mexíkó en um 80 prósent af útflutningi landsins fer til Bandaríkjanna.
Líklegt má telja að vöruverðið muni hækka á þessum vörum, og því verði það á endanum neytendur í Bandaríkjunum sem greiði fyrir hækkun á skattinum. Ríkissjóður Bandaríkjanna greiðir óumdeilanlega fyrir múrinn, eins og Trump hefur raunar staðfest.
Skatturinn er því þungt efnahagslegt högg fyrir Mexíkó. Fyrr í dag ákvað forseti Mexíkó, Pena Nieto, að hætta við opinbera heimsókn til Bandaríkjanna. Hann mótmælti eindregið ákvörðuninni um að reisa múrinn, og sagði hana bæði óþarfa og ógna mikilvægu sambandi ríkjanna.
Trump er nú staddur í Philadelphia þar sem hann mun ávarpa Repúblikana á fundi. Trump sjálfur gerði lítið úr því að fundinum með Mexíkóforseta hefði verið frestað, og sagði að þeir ætluðu sér að hittast á fundi í næstu viku. Ekkert liggur þó fyrir um það ennþá.