Íslensk stjórnvöld harma tilskipun Donald Trump Bandaríkjaforseta um bann við landgöngu flóttafólks og borgara sjö ríkja til Bandaríkjanna. Þau lýsa enn fremur þungum áhyggjum af því hvaða afleiðingar hún kunni að hafa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Þar er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að þessi tilskipun sé mjög fjarri því sem við höfum átt að venjast frá Bandaríkjunum, og það sé áhyggjuefni. „Ég tel það fjarri lagi að bann við komu flóttafólks og íbúa ákveðinna ríkja sé besta leiðin til að tryggja öryggi Bandaríkjanna, sem er yfirlýst markmið tilskipunarinnar[...]Að loka landamærum fyrir fólki sem er á flótta undan stríði, og gera upp á milli fólks á grundvelli þjóðernis eða trúar, getur ekki verið rétta leiðin og gefur röng skilaboð. Í innflytjendum og flóttafólki felst framar öðru mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samfélög.“
Guðlaugur Þór segir að íslenskir ríkisborgarar sem upprunir eru í þeim sjö löndum sem falla undir tilskipun Trump muni hljóta fullan stuðning íslensku ríkisstjórnarinnar komi til þess að þeim verði meinuð innganga í Bandaríkin á grundvelli uppruna síns. Þá muni íslensk stjórnvöld koma athugasemdum og afstöðu á framfæri við bandarísk stjórnvöld með skýrum hætti.
Íslenskir ráðamenn hafa brugðist við aðgerðum Trump í dag. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að það væri hræðilegt að hugsa hvernig komið væri fyrir Bandaríkjunum. Fordómar ráði nú ríkjum í þessari vöggu lýðræðis og frelsis, fáfræði og fljótræði stýri för og réttindi væru fótum troðin. „Nú reynir á innviði réttarríkisins, en við getum ekki horft þegjandi á þegar forystuþjóð vestrænna gilda er breytt í andhverfu sína. Íslendingar hljóta allir að styðja frelsið og lýsa vanþóknun á stefnu og aðgerðum Trumps.“
Samflokksmaður hans og félags- og jafnréttisráðherra, Þorsteinn Víglundsson, sagði í stöðuuppfærslu að á morgun bjóði Íslendingar fimm sýrlenskar fjölskyldur sem ætla að setjast hér að velkomnar. „Alls munum við taka á móti 47 manns nú í upphafi árs. Þannig sinnum við skyldum okkar gagnvart flóttamönnum, með opnum faðmi en ekki lokuðum landamærum. Það er sorglegt að fylgjast með atburðum í Bandaríkjunum undanfarna viku. Við sýnum andúð okkar á stefnu Trump best í verki með því að gera betur sjálf í þessum efnum.“
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, hvatti alla til að mótmæla aðgerðunum. Guðlaugur Þór hafði áður sagt í stöðuuppfærslu á Facebook að það væri „forgangsmál að berjast gegn hryðjuverkum en baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef við mismunum fólki eftir trúarbrögðum eða kynþætti.“