Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur varið ákvörðun sína um að banna komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í miklum meirihluta og hætta móttöku flóttafólks frá Sýrlandi með röð tísta á Twitter. Þar segir Trump að Bandaríkin þurfi sterk landamæri og öflugt matsferli á innflytjendum strax. Til að undirbyggja þá skoðun sína biður Trump fólk að horfa á það sem sé að gerast í Evrópu, og raunar í öllum heiminum. Þar sé skelfilegt ástand. Trump bætti síðan við að fjölmargir kristnir einstaklingar hafi verið teknir af lifi í Miðausturlöndum. Það megi ekki leyfa þeim hryllingi að halda áfram. Trump nefnir engin dæmi né tölur máli sínu til stuðnings. Þá tísti Trump einnig um New York Times fjölmiðlafyrirtækið, og hvatti einhvern sem hefði „getu og sannfæringu“ til þess að kaupa fyrirtækið, reka það með réttum hætti eða leggja það niður.
Trump undirritaði fyrirskipun um að banna komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í miklum meirihluta í gær. Trump hefur einnig fyrirskipað að ekki verið tekið við flóttafólki frá Sýrlandi.
Íslenskir ráðamenn hafa tjáð sig um aðgerðir Trump í gegnum samfélagsmiðla í dag. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, hvatti alla til að mótmæla aðgerðunum. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að það væri „forgangsmál að berjast gegn hryðjuverkum en baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef við mismunum fólki eftir trúarbrögðum eða kynþætti.“