Mikil vöntun hefur verið á vinnuafli að undanförnu, einkum í störfum sem tengjast ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birt í morgun var atvinnuleysi með allra lægsta móti á síðustum þremur mánuðum síðasta ára var það 2,5 prósent.
Á tímabilinu voru að jafnaði 196.700 manns á aldrinum 16 til 74 ára á vinnumarkaði. Af þeim voru 191.700 starfandi og 5.000 án vinnu og í atvinnuleit.
Atvinnuþátttaka mældist 83%, hlutfall starfandi mældist 80,9% og atvinnuleysi var 2,5%, að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands. „Frá fjórða ársfjórðungi 2015 fjölgaði starfandi fólki um 8.400 og hlutfallið jókst um 1,9 prósentustig. Atvinnulausum fækkaði á sama tíma um 900 manns og hlutfall atvinnulausra af vinnuafli lækkaði um 0,6 prósentustig. Atvinnulausar konur voru 2.500 og var atvinnuleysi á meðal kvenna 2,7%. Atvinnulausir karlar voru 2.500 eða 2,4%. Atvinnuleysi var 2,8% á höfuðborgar-svæðinu og 2% utan þess,“ að því er segir á vef Hagstofu Íslands.
Flestar hagspár gera ráð fyrir áframhaldandi 3 til 5 prósent hagvexti næstu árin sem verður ekki síst knúinn áfram af erlendum ferðamönnum. Í fyrra komu 1,8 milljónir ferðamanna til landsins en gert er ráð fyrir að þeir verði 2,3 milljónir á þessu ári.