Tveir sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi reyndust tengjast hryðjuverkasamtökum, en komu hingað á árunum 2015 og 2016, samkvæmt skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra sem birt var 30. janúar síðastliðinn.
Þeir eru farnir úr landinu en ekki eru gefnar upp frekari upplýsingar um mennina og hvaða samtökum þeir tengdust.
Í skýrslunni segir enn fremur að Ísland hafi verið stoppistöð manna sem fara frá Norður-Ameríku til bardagasvæða þar sem hið svonefnda íslamska ríki berst.
Mesta ógnin í Danmörku
Sé sérstaklega vikið að Norðurlöndunum er sagt í skýrslunni að mesta hættan sé í Danmörku. Hún er „einkum talin stafa af herskáum íslamistum“ og að yfirvöld þar hafi vaxandi áhyggjur af ríkisborgurum sem snúa heim eftir að hafa tekið þátt í bardögum í nafni hryðjuverkasamtaka.
- Í Danmörku er hættustig nú metið á fjórða þrepi á fimm stiga kvarða og telst hryðjuverkaógnin áfram alvarleg þar í landi.
- Í Noregi er talið að óvissa fari vaxandi og að „hætta á hryðjuverkum íslamista í landinu sé til staðar.“
- Í Svíþjóð er hættustig nú metið á þriðja þrepi á fimm stiga kvarða og það hækkaði í mars á síðasta ári
- Í Finnlandi var hryðjuverkaógn síðast metin í lok árs 2015. Þá var hættustig hækkað úr mjög lágu í lágt.
Greiningadeildin metur að hættustig á Íslandi sé í meðallagi.
Byggt er á upplýsingum frá norrænum samstarfsaðilum og skýrslum Evrópulögreglunnar, Europol og fleirum. Hættustig í meðallagi skilgreinist svona: „Almennt er talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum.“
Ógn í Evrópu sífellt til staða
Evrópulögreglan telur að óryggisógnir fari vaxandi í álfunni og að hryðjuverk sem unnin voru í Evrópu á árinum 2015 til 2016 gefi til kynna breyttan ásetning, skotmörk, aðferðir og getu islamskra hryðjuverkamanna.
Almennt er erfitt fyrir lögreglu og yfirvöld að fylgjast náið með hryðjuverkógn og meta hverju sinni hvaðan hún kemur. Greiningardeildin telur ekki útilokað að hér á landi fari fram skipulagning hryðjuverka í öðru landi og tekur virkan þátt í alþjóðlegri samvinnu um þau málefni.
Áhersla er lögð á það í skýrslunni að lögregluyfirvöld hafi sömu heimildir hér á landi eins og tíðkast í öðrum löndum til að hægt sé að auka öryggi og rannsaka mögulegar ógnanir. Þetta sé grundvallaratriði, sem þurfi að huga að.