„Þetta frumvarp er verra en fyrri frumvörp vegna þess að það heimilar einnig áfengisauglýsingar. Ég tel frumvarpið því vera mestu afturför í lýðheilsumálum Íslendinga frá lýðveldisstofnun,“ segir Árni Guðmundsson, formaður Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, í viðtali við Morgunblaðið í dag.
Er þar vísað til frumvarps til laga um breytingu á lögum um smásölu áfengis sem felur í sér afnám einkasölu ÁTVR á áfengi, en frumvarpið verður að líkindum fljótlega tekið til fyrstu umræðu á Alþingi.
Þrír þingmanna Pírata eru á meðal þeirra níu þingmanna úr fjórum flokkum sem hafa lagt fram áfengisfrumvarpið. Þau eru Jón Þór Ólafsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Viktor Orri Valgarðsson. Með þeim eru alls sex þingmenn úr Sjálfstæðisflokki, Bjartri framtíð og Viðreisn.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, hefur látið hafa eftir sér að frumvarpið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári.
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir í viðtali við Morgunblaðið að aukið aðgengi fólks að áfengi þýða meiri neyslu. „Ef þetta verður að lögum aukum við neysluna og þau vandamál sem stafa af áfengisneyslu,“ segir hann.