Skoska þingið mun í dag hafna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu í atkvæðagreiðslu í skoska þinginu. Slík atkvæðagreiðsla hefur ekkert vægi þegar kemur að því að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans um að hefja útgönguferlið, en samt segir Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, að atkvæðagreiðslan í dag sé ein sú mikilvægasta í sögu skoska þingsins.
Ástæðan er sú að ef stjórnvöld í London halda áfram að hunsa stjórnvöld í Skotlandi og heldur áfram Brexit-leiðangrinum án þess að hafa Skota með í ráðum verður þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands þeim mun líklegri.
Skoski þjóðarflokkurinn, sem Sturgeon leiðir, mun allur greiða atkvæði gegn því að hefja útgönguferlið. Það munu þingmenn Græningja og frjálslyndra demókrata líka gera. Þingmenn Verkamannaflokksins ætla að greiða atkvæði gegn útgöngunni en hafa sett inn viðauka sem útilokar að haldin verði önnur þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði Skotlands. Eingöngu þingmenn Íhaldsflokksins munu greiða atkvæði með því að hefja útgönguferlið með virkjun 50. greinarinnar.
„Almenningur í Skotlandi kaus með afgerandi hætti að vera áfram í Evrópusambandinu – og aðeins einn af 59 þingmönnum Skotlands í breska þinginu hefur stutt að virkja 50. greinina,“ segir Nicola Sturgeon við Scotsman. „Umræðurnar eru tækifæri fyrir þjóðþingið okkar til að ítreka skoðun skosku þjóðarinnar og gera það ljóst að sem þjóð erum við á móti þessu hörmulega harða Brexit sem er nú unnið að meðal íhaldsmanna í Westminster.“
Sturgeon segir málið vera prófstein á það hvort hlustað sé á rödd Skotlands og hvort hægt sé að virða óskir Skota. Meirihluti Skota, 62%, greiddi atkvæði um að vera áfram innan Evrópusambandsins. Evrópusambandið hafði líka veruleg áhrif á fyrstu þjóðaratkvæðagreiðslu Skota um sjálfstæði, þar sem þeim var tjáð að þeir gætu ekki verið áfram sjálfkrafa aðilar að Evrópusambandinu sem sjálfstætt ríki.
Ráðherrann hefur sagt að önnur atkvæðagreiðsla um sjálfstæði sé nánast óhjákvæmileg núna, eftir að ljóst varð að Brexit-áætlanir stjórnvalda í London bera með sér útgöngu af innri markaði ESB.