Í færslu á vef Íbúðalánasjóðs, sem birt var í dag, kemur fram að stíga þurfi varlega til jarða á fasteignamarkaði, og passa að lána ekki of mikið inn á yfirspenntan fasteignamarkað. Þá kemur fram að nú sé fasteignaverð farið að hækka nokkuð hratt frá byggingarkostnaði, sem sé hættuleg þróun.
Tekið er fram í skrifunum að staðan á markaðnum fari eftir því hernig landið liggur þegar kemur að fólkinu í landinu. „Í umræðunni undanfarið hefur mikið verið rætt um verðhækkanir á húsnæðismarkaði. Við sáum verðið hækka um 14% á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu á síðasta ári og spár eru uppi um allt að annarri eins hækkun á þessu ári. Ástæða þessarar miklu verðhækkana undanfarin ár er fyrst og fremst skortur á nýju húsnæði, sökum þess að mjög lítið hefur verið byggt undanfarin misseri og það framboð sem var til staðar er að þurrkast upp. Til þess að átta sig á stöðunni er mikilvægt að skilja þær undirliggjandi breytur sem hafa áhrif á verðmyndun á fasteignamarkaði. Eftirspurnin ræðst af fólkinu í landinu og stöðu þeirra. Í því samhengi má nefna mikilvægar stærðir á borð við fólksfjölgun, þróun kaupmáttar og aðgengi að fjármagni,“ segir á vef Íbúðalánasjóðs.
Undanfarin ár hefur fólksfjölgun verið meiri en fjölgun íbúða og framboðið hefur engan veginn náð að anna eftirspurn. Launa- og kaupmáttaraukningar hafa einnig verið áberandi en aukinn kaupmáttur ýtir enn frekar undir eftirspurn.
Þá hefur gott aðgengi að fjármagni, til dæmis hjá Lífeyrissjóðum, sem og bætt skuldastaða heimilanna einnig auðveldað fasteignakaup, segir á vef Íbúðalánasjóðs.
Þá segir að staðan geti reynst erfið fyrir fólk sem spenni bogann of hátt, og mikilvægt sé fyrir lánastofnanir að halda að sér höndum í lánveitingum, svo að ekki fari illa.
Spár gera ráð fyrir því að fasteignaverð hækki um 30 prósent til viðbótar á næstu þremur árum, og er það einkum mikil eftirspurn á meðan framboðið er takmarkað sem veldur þeirri stöðu.