Úrvalsvísitala hlutabréfamarkaðarins hækkaði um 3,71 prósent í viðskiptum dagsins. Verðmiðinn á Marel rauk upp um 7,39 prósent en uppgjör félagsins fyrir síðasta fjórðung síðasta árs var töluvert umfram væntingar. Þannig jukust tekjur milli ára úr 815 milljónum evra í 983 milljónir evra, eða sem nemur tæplega 120 milljörðum króna.
Pantanastaða félagsins þykir góð og greinilegur byr í seglum félagsins þessi misserin, samkvæmt uppgjörskynningu félagsins.
Heildarvelta á mörkuðum nam rúmlega tíu milljörðum og þar af var velta á hlutabréfamarkaði 5,7 milljarðar og 4,5 milljarðar á skuldabréfamarkaði.
Töluverðar lækkanir hafa verið á mörkuðum á undanförnum misserum, ekki síst vegna þess hve Icelandair hefur lækkað mikið. Í viðskiptum dagsins hækkaði Icelandair um rúmlega 4 prósent og er gengi bréfa félagsins komið upp fyrir 15. Um mitt ár í fyrra var það umtalsvert hærra eða tæplega 40.
Markaðsvirði Marel er nú 212 milljarðar króna og hefur það aukist um rúmlega 22 prósent á einu ári.