Áfrýjunardómstóll í San Francisco hefur úrskurðað að tímabundið lögbann sem sett var á tilskipun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, um ferðabann borgara sjö ríkja, Líbíu, Jemen, Sýrlands, Írak, Íran, Sómalíu og Súdan, skuli standa. Forsetatilskipunin hefur því ekkert gildi lengur, eins og staðan er, og mega borgarar þessara landa fara inn í landið með lögmæta vegabréfsáritun.
Donald Trump hefur þegar tjáð sig á Twitter, og segir að málinu verði haldið til streitu fyrir dómstólum - þá væntanlega hjá Hæstarétti - og segir að öryggi þjóðarinnar sé í húfi.
Þann 27. janúar síðastliðinn gaf Trump út tilskipun þess efnis, að íbúar Írans, Íraks, Jemens, Líbíu, Sómalíu, Súdans og Sýrlands, skyldu ekki fá að stíga fæti á bandaríska grund, jafnvel þótt þeir hefðu gildar vegabréfsáritanir undir höndum. Þá náði bannið einnig til fólks sem bjó í Bandaríkjunum og hafði tengsl við ríkin sjö, jafnvel þó það hefði græna kortið.
Á sama degi og bannið var sett á var horfið frá því að taka á móti 10 þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi, eins og ákveðið hafði verið í tíð Baracks Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.
Washington ríki kærði ferðabannið til alríkisdómstóls og 3. febrúar og setti Jason L. Robarts, dómari við svæðisdómstól allríkisdómstólsins í Washingtonríki, tímbundið lögbann á framkvæmd tilskipunarinnar.
Meginrökin voru þau, í dómsmálinu, að það fæli í sér brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna og væri alltof víðtæk aðgerð, án nægilegs rökstuðnings. Tímabundið lögbanna var sett á grundvelli þessi að vafi væri uppi um hvort lögbannið væri í takt við lög og stjórnarskrá, og var það sett á þeim forsendum.
Bandarísk stjórnvöld áfrýjuðu lögbanninu til áfrýjunardómstólsins í San Francisco, sem teygir sig yfir vesturströnd Bandaríkjanna, Alaska, Hawaii og fleiri ríki. Málflutningur fór þar fram á þriðjudag, og sagði ríkisstjóri Washington, Bob Ferguson - sem hefur leitt undirbúning málaferlanna gegn komubanni Trump - að hann væri sannfærður um að bannið væri ólöglegt, stæðist ekki stjórnarskrá og að Washington ríki - og fleiri meðstefnendur í málinu - myndu sigra.
Það hefur nú gerst en líklegt má telja, sé mið tekið af Twitter færslu Trumps forseta, að málið verið lagt fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna að dæma um.